Áframhaldandi lækkanir á hlutabréfamörkuðum í september

Vísitala Aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 8,3% í september. Lækkunin er sú næst mesta yfir heilan mánuð á árinu, en í maí lækkaði vísitalan um 9,9%. Flest félaganna á Aðallistanum lækkuðu í verði eða 19 af samtals 22 félögum. Mesta lækkunin var hjá Eimskip, (-17,3%) næst mesta hjá Iceland Seafood (-13,4%) og svo hjá Origo (-12,3%). Minnsta lækkunin var hjá Icelandair Group, 5,5%. Þar á eftir kom Síldarvinnslan (-5,7%) og Skel fjárfestingarfélag (-5,8%). Þrjú félög hækkuðu í verði, Síminn (7,6%), Ölgerðin Egill Skallagrímsson (7,3%) og Hagar (4,4%).
Þrátt fyrir þessar lækkanir er meirihluti félaga enn með jákvæða ávöxtun sé horft til síðustu 12 mánaða. Mesta ávöxtunin er hjá Sýn (38,4%) en þar á eftir koma Brim (26,1%) og Skel fjárfestingarfélag (23,7%). Mesta lækkunin er hjá Iceland Seafood (54,7%) og stærsta félaginu í Kauphöllinni, Marel, sem hefur lækkað um rétt rúman helming.
Langflestir markaðir ná nýjum lægðum á árinu
Hlutabréfamarkaðir í helstu viðskiptalöndum Íslands héldu áfram að lækka í september eftir verðlækkun í ágúst. Lækkunin var að meðaltali 8% í viðskiptalöndunum sem er næst mesta lækkunin á árinu á eftir júnímánuði þegar lækkunin var að meðaltali 8,3%. Sé horft til lokaverðs í hverjum mánuði náðu nær allir markaðir nýju lágmarki nú í september. Frá áramótum hefur lækkunin verið mest í Þýskalandi, eða 34,3%. Þar á eftir koma Svíþjóð (-31,9%) og Austurríki (-30,3%). Bandaríski markaðurinn hefur tapað fjórðungi af verðgildi sínu og sé breski hefur lækkað um 10,6%. Íslenski markaðurinn hefur lækkað um 18,4%. Þessi þróun nú í september þýðir að nánast allir markaðir í helstu viðskiptalöndum Íslands eru með neikvæða 12 mánaða ávöxtun. Einungis norski markaðurinn rétt hangir yfir núllinu, en 12 mánaða ávöxtun hans er 0,3%. Minnsta lækkunin hefur verið í Bretlandi, eða 7,3%. Þar á eftir koma Kanada (-8,1%) og Japan (-9,6%). Mesta lækkunin er í Þýskalandi (33,3%) en þar á eftir koma Svíþjóð (-23,9%) og Finnland (-20,3%).
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








