Áframhaldandi lækkanir á hlutabréfamörkuðum í september
Vísitala Aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 8,3% í september. Lækkunin er sú næst mesta yfir heilan mánuð á árinu, en í maí lækkaði vísitalan um 9,9%. Flest félaganna á Aðallistanum lækkuðu í verði eða 19 af samtals 22 félögum. Mesta lækkunin var hjá Eimskip, (-17,3%) næst mesta hjá Iceland Seafood (-13,4%) og svo hjá Origo (-12,3%). Minnsta lækkunin var hjá Icelandair Group, 5,5%. Þar á eftir kom Síldarvinnslan (-5,7%) og Skel fjárfestingarfélag (-5,8%). Þrjú félög hækkuðu í verði, Síminn (7,6%), Ölgerðin Egill Skallagrímsson (7,3%) og Hagar (4,4%).
Þrátt fyrir þessar lækkanir er meirihluti félaga enn með jákvæða ávöxtun sé horft til síðustu 12 mánaða. Mesta ávöxtunin er hjá Sýn (38,4%) en þar á eftir koma Brim (26,1%) og Skel fjárfestingarfélag (23,7%). Mesta lækkunin er hjá Iceland Seafood (54,7%) og stærsta félaginu í Kauphöllinni, Marel, sem hefur lækkað um rétt rúman helming.
Langflestir markaðir ná nýjum lægðum á árinu
Hlutabréfamarkaðir í helstu viðskiptalöndum Íslands héldu áfram að lækka í september eftir verðlækkun í ágúst. Lækkunin var að meðaltali 8% í viðskiptalöndunum sem er næst mesta lækkunin á árinu á eftir júnímánuði þegar lækkunin var að meðaltali 8,3%. Sé horft til lokaverðs í hverjum mánuði náðu nær allir markaðir nýju lágmarki nú í september. Frá áramótum hefur lækkunin verið mest í Þýskalandi, eða 34,3%. Þar á eftir koma Svíþjóð (-31,9%) og Austurríki (-30,3%). Bandaríski markaðurinn hefur tapað fjórðungi af verðgildi sínu og sé breski hefur lækkað um 10,6%. Íslenski markaðurinn hefur lækkað um 18,4%. Þessi þróun nú í september þýðir að nánast allir markaðir í helstu viðskiptalöndum Íslands eru með neikvæða 12 mánaða ávöxtun. Einungis norski markaðurinn rétt hangir yfir núllinu, en 12 mánaða ávöxtun hans er 0,3%. Minnsta lækkunin hefur verið í Bretlandi, eða 7,3%. Þar á eftir koma Kanada (-8,1%) og Japan (-9,6%). Mesta lækkunin er í Þýskalandi (33,3%) en þar á eftir koma Svíþjóð (-23,9%) og Finnland (-20,3%).