Áfram verulegur slaki á vinnumarkaði

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 195.900 manns hafi verið á vinnumarkaði í nóvember, sem jafngildir 78,2% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 183.400 starfandi og um 12.600 atvinnulausir og í atvinnuleit. Starfandi fólki fækkaði um 11.200 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 5.900. Hlutfall starfandi var 73,2% í nóvember og hafði minnkað um 1,8 prósentustig frá nóvember 2019.
Í apríl var atvinnuþátttaka 75,8% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003 þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka mældist meiri í maí og júní en hefur síðan minnkað og mældist 78,2% nú í nóvember sem er 0,7 prósentustigum lægra en í nóvember 2019.
Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,6% og hefur farið eilítið lækkandi síðustu mánuði.
Minnkandi atvinnuþátttaka er að töluverðum hluta ákveðin birtingarmynd atvinnuleysis þar sem einhver hluti vinnuaflsins kýs að hverfa af vinnumarkaði í stað þess að verða atvinnulaus.
Samkvæmt vinnumarkaðskönnun voru um 8.500 atvinnulausir í nóvember, sem samsvarar 6,4% atvinnuleysi, og hafði atvinnuleysi þá minnkað um 0,4 prósentustig milli mánaða. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 20.900 skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok nóvember (án skerts starfshlutfalls), sem samsvarar 10,6% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var hins vegar 12% í nóvember og hafði aukist um 0,9 prósentustig frá mánuðinum á undan. Vinnumálastofnun mælir því töluvert meira atvinnuleysi en Hagstofan um þessar mundir. Ítarlega var fjallað um mismunandi mælingar á atvinnuleysi í nýlegri Hagsjá.
Venjulegur vinnutími styttist verulega milli október og nóvember og er nú 1,6 stundum styttri en í nóvember 2019. Vinnutími var 37,5 stundir í nóvember 2020 samanborið við 39,1 stund í nóvember í 2019.
Starfandi fólki á vinnumarkaði fækkaði um 5,8% frá því í nóvember 2019. Venjulegum vinnustundum fækkaði um 4,1% á sama tíma. Þetta þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, minnkaði um 9,8% milli ára. Vinnuaflsnotkun hefur nú minnkað í 9 mánuði í röð, eða allt frá því í febrúar 2020. Þarna er um verulega breytingu að ræða frá undanförnum árum, en vinnuaflsnotkun fór þá nær stöðugt vaxandi.
Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar eru áfram dökkar. Kórónuveirufaraldurinn hefur augljóslega haft mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað þannig að þessar niðurstöður koma ekki á óvart. Áhrif faraldursins á hagkerfi og samfélag birtast mjög skýrt í þessum tölum af vinnumarkaði þar sem slakinn er mikill. Nú þegar vonir standa til þess að það sjái fyrir endann á faraldrinum má vænta þess að vinnumarkaðurinn breytist til hins betra. Eitt megineinkenni íslensks vinnumarkaðar er mikill sveigjanleiki og því má ætla að þróunin færist til betri vegar eftir því sem árangur næst af bólusetningum á næstu mánuðum.
Lesa Hagsjána í heild









