Staðan á leigumarkaði hefur verið með rólegasta móti frá því að veirufaraldurinn hófst og hefur leiguverð samkvæmt nýjum samningum lækkað nokkuð. Þessa þróun má rekja til nokkurra þátta. Í fyrsta lagi hafa vextir lækkað sem hefur auðveldað fasteignakaup og þar með dregið úr eftirspurn eftir leiguhúsnæði, ásamt því sem framboð leiguhúsnæðis hefur aukist. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að auka framboð leiguhúsnæðis á viðráðanlegum kjörum ásamt því sem íbúðir sem voru nýttar í skammtímaleigu til ferðamanna hafa í auknum mæli margar ratað í almenna leigu. Sú staða gæti þó hæglega breyst nú þegar ferðamenn eru farnir að streyma til landsins á ný.
Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu einungis um 0,1% milli apríl og maí samkvæmt nýjum þinglýstum leigusamningum. Horft til 12 mánaða þróunar, sést að leiguverð er nú 3,4% hærra en í maí í fyrra og er talsvert undir hækkun íbúðaverðs sem mælist nú 13% í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu.
Stöðug fækkun virðist vera á fjölda umsækjenda á bið eftir félagslegu leiguhúsnæði samkvæmt gögnum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Við upphaf júnímánaðar voru alls 804 umsækjendur á biðlista eftir íbúð sem eru 204 færri en á sama tíma í fyrra og 473 færri en á sama tíma árið 2019. Þó vissulega séu enn margir á bið eftir íbúð, hlýtur þetta að vera til marks um batnandi stöðu á leigumarkaði og aðgengis fólks að húsnæði.
Lesa Hagsjána í heild









