Áfram mikil batamerki á vinnumarkaði
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er áætlað að um 207.900 manns hafi verið á vinnumarkaði í september 2021, sem jafngildir 78,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 202.000 starfandi og um 5.900 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 2,8% af vinnuaflinu. Starfandi fólki fjölgaði um 3.900 milli ára. Atvinnulausum fækkaði um 3.000 frá september í fyrra. Hlutfall starfandi var 75,9% í september og hækkaði um 2,2 prósentustig frá september 2020. Allt eru þetta skýr merki um sterkari vinnumarkað.
Í fyrra fór atvinnuþátttaka lægst niður í 73,4% í apríl og hafði ekki verið lægri áður í sögu vinnumarkaðskönnunarinnar. Atvinnuþátttaka hefur farið stöðugt vaxandi á þessu ári og var 78,2% nú í september sem er 1,1 prósentustigi meira en í september í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 78,2% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð síðustu mánuði á þann mælikvarða.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 2,8% í september sem er 1,6 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 5% í september og hafði minnkað um 4 prósentustig milli ára.
Starfandi fólki á 3. ársfjórðungi fjölgaði um 4,3% miðað við sama tíma í fyrra. Vinnutími styttist um 0,8% á sama tíma þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 3,5% milli ára. Þetta er annar ársfjórðungurinn síðustu 2 ár sem við sjáum fjölgun heildarvinnustunda, en þeim var tekið að fækka nokkru áður en faraldurinn brast á.
Atvinnuleysi jókst meira á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum á tíma faraldursins samkvæmt tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Samkvæmt spá sjóðsins, sem reyndar er áþekk spá Hagfræðideildar Landsbankans fyrir Ísland, mun atvinnuleysi hér á landi minnka meira og hraðar en í hinum löndunum. Atvinnuleysi var álíka mikið í Noregi og á Íslandi á árinu 2019 og verður aftur svipað á árinu 2023 gangi spá IMF eftir. Breytingarnar á milli þessara tveggja tímapunkta hafa hins vegar verið mun meiri á Íslandi.