Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Af­gang­ur á 3. árs­fjórð­ungi, en að öll­um lík­ind­um halli á ár­inu

Afgangur mældist á viðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Það var halli á vöruskiptum, frumþáttatekjum og rekstrarframlögum, sem afgangur á þjónustuviðskiptum náði þó að vega upp, enda háannatími ferðaþjónustu. Það sem af er ári mælist samt það mikill halli að nær öruggt er að það mælist halli á árinu í heild.
Flutningaskip
5. desember 2024

Á þriðja ársfjórðungi mældist 46 ma. kr. afgangur af viðskiptum við útlönd samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti fyrr í vikunni. Þetta kemur í kjölfar 34 ma. kr. halla á 1. ársfjórðungi og 38 ma. kr. halla á öðrum ársfjórðungi. Þessi viðsnúningur var viðbúinn, en þriðji ársfjórðungur er sá fjórðungur sem kemur jafnan best út, enda háannatími ferðaþjónustu.

Ef við skoðum samsetningu viðskiptajöfnuðar við útlönd síðustu ár sést nokkuð skýrt mynstur: Það er viðvarandi halli á vöruskiptajöfnuði og rekstraframlögum, afgangur af þjónustujöfnuði (nema á meðan heimsfaraldurinn reið yfir), en ýmist halli eða afgangur af frumþáttatekjum. Það er misjafnt hvort þjónustujöfnuðurinn dugi til þess að vega upp á móti hallanum af öðrum undirliðum á fyrsta, öðrum og fjórða ársfjórðungi, en hann dugar jafnan til þess á þeim þriðja. Þriðji ársfjórðungur þessa árs var engin undantekning, en það mældist 76 ma. kr. halli á vöruskiptajöfnuði, 7 ma. kr. halli á frumþáttatekjum og 12 ma. kr. halli á rekstrarframlögum, en 141 ma. kr. afgangur af þjónustujöfnuði.

Minni afgangur en í fyrra

Þetta er nokkuð verri niðurstaða en á þriðja ársfjórðungi í fyrra, en þá mældist 87 ma. kr. afgangur. Mestu munar um viðsnúning í frumþáttatekjum, en í stað 29 ma. kr. afgangs mældist 7 ma. kr. halli, alls 36 ma. kr. viðsnúningur. Auk þess dróst afgangurinn af þjónustujöfnuði saman um 14 ma. kr. á milli ára. Á móti kemur að hallinn á vöruskiptajöfnuði var 8 mö.kr. minni en í fyrra. Svo gott sem engin breyting var á rekstrarframlögum á milli ára, enda sá liður frekar stöðugur.

Ef við skoðum tímabilið frá upphafi árs sést að verulegur viðsnúningur hefur átt sér stað á milli ára, en í stað 63 ma. kr. afgangs af viðskiptum við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 mælist nú 26 ma. kr. halli á fyrstu níu mánuðum ársins í ár. Alls er þetta viðsnúningur upp á 90 ma. kr. Mestu munar um að afgangur af þjónustujöfnuði dróst saman um 46 ma. kr. á milli ára og að afgangur af frumþáttatekjum dróst saman um 36 ma. kr. Það er mjög ólíklegt að það náist að vinna upp þennan halla á fjórða ársfjórðungi og því nokkuð öruggt að það mælist halli á viðskiptum við útlönd í ár. Í nýjustu þjóðhagsspá okkar frá því í október gerðum við ráð fyrir 16 ma. kr. halla fyrir árið í heild, en miðað við tölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins er ekki ólíklegt að hallinn verði meiri. Þó ber að hafa í huga að þetta eru bráðabirgðatölur og ekki óhugsandi að þær verði endurskoðaðar upp á við.

Meiri innflutningur skýrir aukinn halla á vöru- og þjónustuviðskiptum

Verðmæti vöruútflutnings hefur í raun staðið nokkurn veginn í stað á fyrstu 9 mánuðum ársins, borið saman við sama tímabil í fyrra. Aukin innflutningsverðmæti hafa á móti þau áhrif að vöruskiptahalli hefur aukist lítillega á milli ára. Útflutningsverðmæti sjávarafurða og áls hefur dregist saman í ár, en á móti hefur verið mikil aukning í útflutningsverðmætum lyfja og lækningavara, og einnig eldisfisks, sem hefur vegið að mestu upp samdrátt í hinum hefðbundnu vöruútflutningsgreinum. Innflutningur jókst svo aftur á móti á ýmsum vörum, til að mynda fjárfestinga- og hrávörum.

Á sama tíma mælist minni afgangur af þjónustuviðskiptum en á sama tíma í fyrra. Líkt og með vöruútflutning hefur verðmæti þjónustuútflutnings staðið nokkurn veginn í stað á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Aukinn þjónustuinnflutningur skýrir því minni afgang nú en í fyrra. Mestu munar um mikla aukningu í innfluttri fjármálaþjónustu á sama tíma og útflutt fjármálaþjónusta hefur dregist saman.

Halli á frumþáttatekjum

Til frumþáttatekna teljast fjármagnstekjur og gjöld. Þrír stærstu undirliðirnir eru afkoma innlendra fyrirtækja í erlendri eigu, afkoma erlendra fyrirtækja í eigu innlendra aðila og vextir af skuldabréfum gefnum út af innlendum aðilum sem eru í eigu erlendra aðila. Erlend dótturfélög í eigu innlendra aðila skiluðu hagnaði, sem var til hækkunar á frumþáttatekjum. Vaxtagreiðslur af skuldabréfum gefnum út af innlendum aðilum sem eru í eigu erlendra aðila voru aftur á móti til lækkunar á þáttatekjujöfnuði og það mældist hagnaður af innlendum dótturfélögum í erlendri eigu þannig að sá liður var einnig til lækkunar á þáttatekjujöfnuði. Hér er líklegat fyrst og fremst um að ræða álfyrirtækin. Álverð er í hærra lagi núna, en á móti kemur aðeins minni framleiðsla vegna raforkuskerðinga. Hafa ber í huga að flæði á gjaldeyri inn eða út úr landi þarf alls ekki að fylgja þáttatekjujöfnuði, heldur eru sumir undirliðirnir fyrst og fremst bókhaldslegs eðlis.

Erlend staða þjóðarbúsins batnaði á fjórðungnum

Í lok þriðja ársfjórðungs var hrein erlend staða þjóðarbúsins 1.793 ma. kr. sem samsvarar 40% af vergri landsframleiðslu. Hrein staða batnaði um 130 ma. kr. á fjórðungnum. Almennt skýrast breytingar á erlendri stöðu annars vegar af fjármagnsjöfnuði (t.d. ef innlendur aðili kaupir erlendar eignir eða tekur erlent lán) og hins vegar af gengis- og verðbreytingum (t.d. ef erlend hlutabréf í eigu innlendra aðila hækka eða lækka í verði í krónum). Að þessu sinni höfðu gengis- og verðbreytingar mun meiri áhrif en fjármagnsjöfnuður og munaði mestu um að erlendar eignir þjóðarbúsins jukust um 103 ma. kr., aðallega vegna hækkana á erlendum verðbréfamörkuðum. Í krónum talið hefur hrein erlend staða aldrei mælst betri og sem hlutfall af VLF hefur hrein erlend staða einungis eitt sinn mælst betri, í lok 4. ársfjórðungs 2021, þegar hún mældist 43,3% af vergri landsframleiðslu.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
1. júlí 2025
Mánaðamót 1. júlí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flugvél á flugvelli
30. júní 2025
Vikubyrjun 30. júní 2025
Verðbólga jókst úr 3,8% og mældist 4,2% í júní. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum þrýstingi á innfluttum vörum en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu. Þá jókst velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum um 1,5% að raunvirði í mars og apríl.
Paprika
27. júní 2025
Verðbólga umfram væntingar
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðlag hækkaði umfram spár, en við höfðum spáð 3,9% verðbólgu. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum verðþrýstingi á innfluttum vörum, einkum fötum, skóm og tómstundarvörum, en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu.
Orlofshús á Íslandi
27. júní 2025
Viðskipti með sumarhús færast aftur í aukana
Sumarhúsum á Íslandi hefur fjölgað um 45% á síðustu 20 árum. Viðskipti með sumarhús færðust verulega í aukana á tímum faraldursins. Fyrst eftir faraldurinn hægðist um en nú virðist aftur hafa glaðnað yfir markaðnum.
Herðubreið
25. júní 2025
Áfram merki um viðnámsþrótt í hagkerfinu
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 1,5% að raunvirði í mars og apríl og um 5,2% í janúar og febrúar, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Veltugögnin bera þess merki að hagkerfið standi vaxtastigið vel af sér sem er í takt við aukinn hagvöxt í byrjun árs. Það sem af er ári hefur velta aukist mest í sölu og viðhaldi á bílum en einnig má greina aukin umsvif í helstu útflutningsgreinunum: álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Ferðafólk
23. júní 2025
Færri ferðamenn en meiri ferðaþjónusta?
Færri ferðamenn hafa heimsótt Ísland það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það hefur erlend kortavelta aukist á milli ára og það sama má segja um útflutningstekjur af ferðaþjónustu. Við teljum ýmislegt benda til þess að erlendir ferðamenn hafi verið fleiri síðustu mánuði en talning Ferðamálastofu segir til um.
Íbúðahús
23. júní 2025
Vikubyrjun 23. júní 2025
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,45% á milli mánaða í maí. Vísitalan lækkaði þar með í fyrsta sinn á þessu ári og ársbreytingin hefur ekki verið jafn lítil frá því í byrjun síðasta árs. Áfram er kraftur í kortaveltu Íslendinga, ekki síst erlendis.
Kortagreiðsla
19. júní 2025
Kortavelta Íslendinga erlendis eykst og veldur auknum greiðslukortahalla
Kortavelta jókst um 6,8% á milli ára í maí að raunvirði þar af jókst hún um 21% erlendis. Það sem af er ári hefur kortavelta aukist um 5,5% frá sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir í maímánuði en nú í ár. Greiðslukortajöfnuður var neikvæður um 4,2 ma.kr. sem er töluvert meiri halli en í maí í fyrra.
Hús í Reykjavík
16. júní 2025
Vikubyrjun 16. júní 2025
Í síðustu viku fór fram uppgjör við eigendur HFF-bréfa. Erlendum ferðamönnum fjölgaði aðeins á milli ára í maí og atvinnuleysi jókst á milli ára. Í vikunni fram undan birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
12. júní 2025
Spáum 3,9% verðbólgu í júní
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í júní og mælist 3,9%. Verðbólga helst líklega nær óbreytt í sumar en eykst svo aðeins með haustinu, þegar einskiptisliðir vegna skólagjalda og skólamáltíða detta út úr tólf mánaða taktinum. Við gerum áfram ráð fyrir 4,0% verðbólgu í árslok.