4,4% verðbólga í maí – fasteignaverð kom aftur á óvart
Þetta er nokkuð meiri hækkun en við áttum von á, en við höfðum spáð 0,33% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Það sem kom mest á óvart í tölunum var að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar kostnað húsnæðiseigenda við það að búa í eigin húsnæði, hækkaði um 1,5% milli mánaða (0,25% áhrif á vísitölu). Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem þessi liður hækkar meira en við áttum von á, en í mars hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,9% (0,15% áhrif á vísitölu) og um 2,5% í apríl (0,40% áhrif á vísitöluna).
Síðustu tólf mánuði hefur markaðsverð húsnæðis hækkað um 12,7%, sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað nokkuð meira en húsnæði í heild síðustu tólf mánuði, fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu svipað og fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins minna. Áhrif vaxtabreytinga eru 5,6 prósentustig til lækkunar. Samantekið er tólf mánaða hækkun reiknaðrar húsaleigu því 7,1%.
Hitt sem kom okkur á óvart í tölum Hagstofunnar var að matarkarfan var óbreytt milli mánaða, en við áttum von á að hún myndi hækka.
Þó að matarkarfan í heild hafi staðið óbreytt milli mánaða breyttust flestallir undirliðir. Að þessu sinni vildi það þannig til að þeir liðir sem hækkuðu og þeir sem lækkuðu jöfnuðust út. Þannig hækkuðu heitir drykkir (þ.e. te, kaffi og kakó) um 5,5% og kaldir drykkir (þ.e. gos, vatn og safar) um 1,1% á meðan ávextir lækkuðu um 2,0% milli mánaða og grænmeti um 0,7%.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: 4,4% verðbólga í maí– fasteignaverð kom aftur á óvart