0,5% samdráttur á þriðja ársfjórðungi
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar dróst landsframleiðsla saman um 0,5% á þriðja ársfjórðungi og nú er áætlað að samdrátturinn sé 1,0% það sem af er ári. Landsframleiðsla á mann hefur dregist þó nokkuð meira saman en landsframleiðsla í heild. Samfellt frá öðrum ársfjórðungi 2023 hefur landsframleiðsla á mann dregist saman og samdrátturinn mælist 1,6% það sem af er þessu ári, ef miðað er við mannfjöldagögn Hagstofunnar fyrir lok hvers ársfjórðungs.
Helstu undirliðir
- Einkaneysla jókst um 0,8% (0,2% framlag til hækkunar á hagvexti).
- Samneysla jókst um 3,1% (0,9% til hækkunar á hagvexti).
- Fjármunamyndun jókst um 2,3% (1,1% til hækkunar á hagvexti) og sem skýrist að mestu af aukinni íbúðafjárfestingu. Atvinnuvegafjárfesting dróst saman milli ára.
- Birgðir jukust um 5,2 ma. kr. milli ársfjórðunga. Þar sem birgðir jukust meira milli ársfjórðunga á þriðja ársfjórðungi í fyrra voru birgðabreytingar nú 0,8% til lækkunar á hagvexti.
- Alls jukust þjóðarútgjöld um 0,8% milli ára.
- Útflutningur dróst saman um 2,2% á meðan innflutningur dróst saman um 0,7%. Þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur voru áhrif utanríkisverslunar 1,8% lækkunar á hagvexti. Þar liggur skýringin á því að landsframleiðsla hafi dregist saman þótt innlend eftirspurn hafi aukist milli ára.
Einkaneysla jókst lítillega milli ára
Einkaneysla jókst um 0,8% milli ára á þriðja fjórðungi, eftir 0,5% samdrátt fjórðunginn á undan. Á þriðja fjórðungi var það neysla Íslendinga erlendis sem aðallega skýrði aukninguna, sem er líklega samtíningur af neyslu í ferðalögum og netverslun. Einnig færðust útgjöld heimila til þjónustu og húsnæðis lítillega í aukana. Rétt eins og á öðrum fjórðungi drógust bílakaup saman milli ára.
Þróun í einkaneyslu er nokkurn veginn í takt við þróun kortaveltu sem hefur aukist lítillega síðustu mánuði. Hafa ber í huga að þótt einkaneysla aukist í heildina þýðir það ekki að hver og einn landsmaður hafi að jafnaði aukið neyslu sína. Landsmönnum fjölgaði um 1,7% milli ára á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar við lok hvers fjórðungs, og einkaneysla á mann dróst því saman um 0,9% þegar skoðuð á hvern landsmann.
Þótt einkaneysla á mann minnki milli ára er samdrátturinn ekki verulegur og í raun má telja athyglisvert hversu vel einkaneysla hefur staðið af sér vaxtastigið. Þótt vaxtastigið bíti ákveðna hópa fast býr hluti landsmanna að því að hafa safnað upp miklum sparnaði á tímum faraldursins og einnig spila inn í ríflegar launahækkanir undanfarin ár.
Fjárfesting eykst hægar en áður
Fjármunamyndun var 2,3% meiri að raunvirði á þriðja fjórðungi þessa ár en á sama tíma í fyrra. Aukningin skýrist að langmestu leyti af aukinni íbúðafjárfestingu á fjórðungnum, sem jókst um 10,7%. Íbúðafjárfesting hefur nú aukist fjóra ársfjórðunga í röð eftir samfelldan samdrátt allt frá árinu 2021 og er því til marks um nokkuð kröftuga íbúðauppbyggingu.
Atvinnuvegafjárfesting dróst saman um 0,2% á fjórðungnum, en hún hefur aukist um 3,6% það sem af er ári. Fjárfesting í stóriðju jókst um heil 16% milli ára á fjórðungnum, sem ætla má að skýrist af undirbúningi fyrir stórar virkjunarframkvæmdir. Á sama tíma dróst almenn atvinnuvegafjárfesting saman um 2,4%, og fjárfesting í skipum og flugvélum um 4,4%.
Þjónustuviðskipti skýra samdrátt utanríkisviðskipta milli ára
Framlag utanríkisviðskipta var neikvætt um 1,8 prósentustig á þriðja fjórðungi og hafði mest áhrif til lækkunar á landsframleiðslu á fjórðungnum. Útflutningur á vörum og þjónustu dróst saman um 2,2% og skýrist að nánast öllu leyti af 6% samdrætti þjónustuútflutnings, því vöruútflutningur dróst aðeins lítillega saman, eða um 0,1%.
Samdrátt í útfluttri þjónustu má að langmestu leyti rekja til samdráttar í ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta skiptist í farþegaflutninga með flugi annars vegar og ferðalög hins vegar. Á þriðja fjórðungi dróst liðurinn fyrir farþegaflutninga með flugi töluvert saman á föstu verðlagi eða um rúmlega 10%, en ferðalagaliðurinn dróst minna saman eða um rétt rúmlega 1% milli ára. Í sama tíma jókst þjónustuinnflutningur milli ára, þar sem aukinn innflutningur fjármálaþjónustu hafði mest áhrif.
Sem fyrr segir dróst vöruútflutningur saman um 0,1% milli ára, en hefur aukist um 1,4% það sem af er ári. Annar vöruútflutningur hefur aukist nokkuð á árinu, þar sem aukinn útflutningur á lyfjum og eldisfiski hefur verið áberandi mikill. Á sama tíma hefur útflutningur á áli og sjávarafurðum hefur verið nokkuð lakari en í fyrra. Minni álútflutningur skýrist að hluta af raforkuskerðingu og minni útflutningur sjávarafurða á fyrri hluta ársins skýrist af loðnubresti. Vöruinnflutningur dróst einnig saman á fjórðungnum, um 1,8%. Minna var flutt inn af fjárfestingarvörum, flutningstækjum og fólksbílum.
Landsframleiðsla hefur dregist saman um 1% það sem af er ári
Gögn fyrir fyrstu tvo fjórðunga ársins voru uppfærð samhliða nýju birtingunni og nú er áætlað að hagkerfið hafi dregist saman um 2,8% á fyrsta fjórðungi (en ekki 3,5% eins og áður var talið) og vaxið um 0,2% á öðrum (en ekki dregist saman um 0,3% eins og áður var áætlað). Við bjuggumst við því að hagkerfið myndi vaxa lítillega á seinni helmingi ársins og vega á móti samdrætti á fyrri hluta árs. Það sem af er ári hefur hagkerfið dregist saman um 1% frá fyrra ári. Enn má vera að tölurnar verði uppfærðar en í okkar nýjustu hagspá gerum við ráð fyrir 0,1% samdrætti á árinu í heild.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.