Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir árið 2020

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið áður.
11. febrúar 2021 - Landsbankinn
  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna, eftir skatta.
  • Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið 2019. Markmið bankans er að ná að lágmarki 10% arðsemi eiginfjár.
  • Arðsemi eiginfjár á fjórða ársfjórðungi 2020 var 15,5%, samanborið við 6,3% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) hækkaði á milli ára og var 47,4% á árinu 2020 samanborið við 42,6% árið 2019.
  • Útlán Landsbankans jukust um 133,2 milljarða króna. Vanskilahlutfall útlána í árslok 2020 var 0,8% sem er sama hlutfall og í árslok 2019.
  • Eigið fé Landsbankans nam 258,3 milljörðum króna í árslok 2020 og eiginfjárhlutfallið var 25,1% af áhættugrunni.
  • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 4,5 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2020, eða sem nemur 0,19 krónu á hlut.
  • Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans og Pillar III áhættuskýrsla fyrir árið 2020 koma út samhliða birtingu ársuppgjörsins.

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála og rekstrar hjá Landsbankanum, kynnir afkomu bankans árið 2020 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma.

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið áður. Hreinar vaxtatekjur námu 38,1 milljarði króna árið 2020 samanborið við 39,7 milljarða króna árið á undan. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 7,6 milljörðum króna árið 2020 samanborið við 8,2 milljarða króna á árinu 2019. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 7,5 milljarða króna samanborið við 3,6 milljarða króna á árinu 2019. Lækkunin skýrist einkum af 12 milljarða króna virðisrýrnun fjáreigna samanborið við virðisrýrnun upp á 4,8 milljarða króna árið 2019. Aukna virðisrýrnun fjáreigna má rekja til áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.

Heildarvanskil fyrirtækja og heimila stóðu í stað á milli ára og voru 0,8% af útlánum. Vegna tímabundinna sértækra Covid-19 úrræða mælast 90 daga vanskil minni en ella.

Rekstrartekjur bankans á árinu 2020 námu 38,3 milljörðum króna samanborið við 51,5 milljarða króna árið áður. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda nam 2,5% en var 2,8% árið áður.

Rekstrarkostnaður var 25,6 milljarðar króna á árinu 2020 samanborið við 28,2 milljarða króna á árinu 2019. Þar af voru laun og launa­tengd gjöld 14,8 milljarðar króna, samanborið við 14,5 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 9,1 milljarður króna á árinu 2020 samanborið við 9,5 milljarða króna árið 2019.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2020 var 12,6 milljarðar króna samanborið við 23,3 milljarða króna árið 2019. Reikn­aðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 4,6 milljarðar króna árið 2020 samanborið við 10 milljarða króna árið 2019.

Heildareignir Landsbankans jukust um 137,8 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2020 alls 1.564 millj­örðum króna. Útlán jukust um 12% milli ára, eða um 133 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er aðallega vegna lána til einstaklinga. Í árslok 2020 voru innlán frá viðskiptavinum 793 milljarðar króna, samanborið við 708 milljarða króna í árslok 2019.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2020 var 258,3 milljarðar króna samanborið við 247,7 milljarða króna í árslok 2019. Enginn arður var greiddur til hluthafa á árinu 2020. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2020 var 25,1%, samanborið við 25,8% í árslok 2019. Fjármálaeftirlitið gerir 18,8% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Bankaráð mun leggja til við aðalfund þann 24. mars 2021 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2020 sem nemur 0,19 krónu á hlut, eða samtals 4,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan samsvarar 43% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2020.

Ársreikningur samstæðu 2020

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2020

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans segir:

„Uppgjörið fyrir árið 2020 er til marks um traustan, skilvirkan og stöðugan rekstur bankans. Hagnaður bankans á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna, arðsemin var 4,3% fyrir árið í heild og góð afkoma var af allri starfsemi bankans. Árangurinn er góður, sérstaklega ef haft er í huga að á árinu gjaldfærði bankinn um 12 milljarða króna vegna virðisbreytinga útlána en stór hluti af þeirri gjaldfærslu er vegna möguleika á útlánatöpum sem ekki hafa raungerst. Þetta uppgjör sýnir að bankinn er í sterkri stöðu til að styðja vel við viðspyrnu efnahagslífsins en einnig þá sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna heimsfaraldursins.

Áhersla á hagvæmni í rekstri heldur kostnaði stöðugum milli ára. Hlutfall kostnaðar af tekjum breytist lítið en það var 47,7% á árinu 2020. Rekstrarkostnaður stóð nánast í stað, líkt og verið hefur um árabil. Á sama tíma er mikil fjárfesting í stafrænni þróun.  Á síðustu þremur árum hefur bankinn kynnt um 40 nýjungar í stafrænni þjónustu fyrir viðskiptavinum.

Landsbankinn hefur aldrei lánað meira til íbúðakaupa eða endurfjármögnunar íbúðalána. Bankinn lækkaði vexti sex sinnum og þrátt fyrir miklar áskoranir vegna heimsfaraldursins gátum við mætt verulega aukinni eftirspurn eftir íbúðalánum og tryggt viðskiptavinum mjög góð og samkeppnishæf kjör. Við veittum rúmlega 10.000 einstaklingum og fjölskyldum íbúðarlán og hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði jókst í 26,3%.

Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir tryggð viðskiptavina á ári þar sem öllum áætlunum var kollvarpað. Við veitum viðskiptavinum um land allt fjármálaþjónustu og þar af um 700 fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Við höfum stutt við viðskiptavini okkar og veitt þeim úrræði og aðstoð og vonumst öll til þess að með haustinu horfi til betri vegar. Starfsfólk bankans hefur staðið sig afburðavel, er úrræðagott og hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni. Með góðu starfsfólki og vegna öflugrar stafrænnar þróunar gátum við boðið nánast óskerta þjónustu. Viðskiptavinir brugðust vel við breyttum aðstæðum, voru fljótir að tileinka sér nýjungar og fundu að Landsbankinn var til staðar.

Á árinu 2021 vinnur Landsbankinn eftir nýrri stefnu, Landsbanki nýrra tíma. Stefnan fjallar um hvernig bankinn þróast í sífellu og nýtir stafræna tækni til að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu með mannlegri nálgun. Við ætlum að einfalda viðskiptavinum lífið. Við hefjum árið með útgáfu nýrrar sjálfbærrar fjármálaumgjarðar og ætlum okkur áfram leiðandi hlutverk á sviði sjálfbærni. Það er Landsbanki nýrra tíma.“

Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2020

  • Hagnaður Landsbankans á 4F 2020 nam 9,8 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 3,9 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2019.
  • Arðsemi eiginfjár var 15,5% á 4F 2020, samanborið við 6,3% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 9,7 milljarðar króna en þær námu 9,6 milljörðum króna á 4F 2019.
  • Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 1,5 milljarða króna á 4F 2020 en var neikvæð um 1,4 milljarða króna á 4F 2019.
  • Hreinar þjónustutekjur voru 2,0 milljarðar og eru þær nánast óbreyttar frá sama tímabili og árið áður.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda var 2,4% á 4F 2020, samanborið við 2,7% á sama ársfjórðungi 2019.
  • Laun og launatengd gjöld námu 4,0 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2019.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,4 milljörðum króna á 4F 2020 samanborið við 2,5 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2019.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fjórða ársfjórðungi 2020 var 38,8% samanborið við 46,2% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Stöðugildi hjá Landsbankanum í árslok 2020 voru 878 en voru 893 í lok árs 2019.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2020

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna, samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% samanborið við 7,5% arðsemi árið áður.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 38,1 milljarði króna á árinu 2020 samanborið við 39,7 milljarða króna á árinu 2019.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda var 2,5% árið 2020 en 2,8% árið 2019.
  • Hrein virðisrýrnun fjáreigna var um 12 milljarðar króna samanborið við hreina virðisrýrnun upp á 4,8 milljarða króna árið 2019.  Aukna virðisrýrnun fjáreigna má einkum rekja til áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.
  • Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 7,6 milljörðum króna á árinu 2020 samanborið við 8,2 milljarða króna á árinu 2019.
  • Aðrar rekstrartekjur námu 4,6 milljörðum króna samanborið við 8,5 milljarða króna árið 2019, sem er lækkun um 46,1% á milli ára. Virðisrýrnun fjáreigna var 12 milljarðar króna árið 2020 samanborið við 4,8 milljarða árið 2019. Aukningu í virðisrýrnun má rekja til áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.
  • Laun og launatengd gjöld námu 14,8 milljörðum króna á árinu 2020, samanborið við 14,5 milljarða króna árið áður.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum nam 9,1 milljarði króna samanborið við 9,5 milljarða króna árið 2019.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) hækkar á milli ára. Þetta hlutfall var 47,4% árið 2020 samanborið við 42,6% árið 2019.
  • Stöðugildum í Landsbankanum fækkaði um 15 á árinu 2020 og voru þau 878 í árslok.
  • Tekjuskattur Landsbankans á árinu 2020 nam 2,1 milljarði króna samanborið við 5,1 milljarð króna á árinu 2019.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans í árslok 2020 var 258,3 milljarðar króna, sem er 11 milljörðum króna hærra en í árslok 2019. Enginn arður var greiddur á árinu 2020 til hluthafa.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok árs 2020 var 25,1% en var 25,8% í lok árs 2019. Það er verulega umfram 18,8% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.
  • Heildareignir bankans námu 1.564 milljörðum króna í lok árs 2020 og hækkuðu um 10% á milli ára.
  • Útlán jukust um 12% á milli ára, eða um 133 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 9 milljarð króna og útlán til einstaklinga jukust um 124 milljarða króna. Mikill vöxtur var í óverðtryggðum útlánum en verðtryggð útlán dragast saman.
  • Innlán viðskiptavina, að fjármálafyrirtækjum undanskildum, jukust um 12% á árinu 2020, eða um 85,6 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum hækkuðu lítillega á árinu og náum 48,7 milljörðum í árslok 2020.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu bankans í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 154% í lok árs 2020 samanborið við 161% í lok árs 2019.
  • Á árinu 2020 hækkaði liðurinn eignir til sölu um 616 milljónir króna.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila stóðu í stað á milli ára og voru 0,8% af útlánum. Vegna tímabundinna sértækra Covid-19 úrræða mælast 90 daga vanskil minni en ella.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  2020 2019 4F 2020 4F 2019
Hagnaður eftir skatta 10.521 18.235 9.822 3.875
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 4,3%

7,5% 15,5% 6,3%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,5% 2,8% 2,4% 2,7%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) * 47,4% 42,6% 38,8% 46,2%
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  31.12.2020 31.12.2019
Heildareignir 1.564.177 1.426.328
Útlán til viðskiptavina 1.273.426 1.140.184
Innlán frá viðskiptavinum 793.427 707.813
Eigið fé 258.255 247.734
Eiginfjárhlutfall alls 25,1% 25,8%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 132% 143%
Heildarlausafjárþekja 154% 161%
Lausafjárþekja erlendra mynta 424% 769%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,8% 0,8%
Stöðugildi 878 893

* K/T = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri Landsbankans á árinu 2020

  • Á árinu 2020 kynntum við nýja stefnu undir yfirskriftinni Landsbanki nýrra tíma. Kjarni stefnunnar er gagnkvæmt traust og mannleg sýn á bankaviðskipti. Við setjum ánægju viðskiptavina í fyrsta sæti, höldum áfram öflugri uppbyggingu tæknimála og þróun stafrænna lausna.
  • Í janúar 2020 var greint frá því að Landsbankinn hefði mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu árið 2019, annað árið í röð.
  • Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði á árinu 2020 var 38,5% og hefur aldrei mælst hærri. Bankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014.
  • Hlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja er rúmlega 40%.
  • Alþjóðlegu fjármálatímaritin Euromoney og The Banker völdu Landsbankann besta bankann á Íslandi 2020.
  • Landsbankinn hefur aldrei lánað jafn mikið í íbúðalán eins og á árinu 2020. Íbúðalán bankans jukust um 123 milljarða króna og markaðshlutdeild óx úr 22% í 26,3%.
  • Eignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans námu samtals 517 milljörðum króna í lok árs 2020.
  • Fjöldi nýjunga voru kynntar í Landsbankaappinu og netbönkum sem allar miðuðu að því að auka sjálfsafgreiðslu, aðgengi að upplýsingum og bæta alla þjónustu til viðskiptavina bankans.
  • Sérstök áhersla var lögð á að bæta stafræna þjónustu við fyrirtæki. Aldrei hefur verið einfaldara fyrir fyrirtæki að koma í viðskipti, stofna bankareikninga og fylgjast með innheimtumálum, svo nokkur dæmi séu nefnd.
  • Nýr vefur Landsbankans fór í loftið í desember 2020. Vefurinn var endurhannaður frá grunni með það mið fyrir augum að einfalda líf viðskiptavina.
  • Frá og með desember 2020 hefur verið hægt að sinna fjármálum fyrirtækja í Landsbankaappinu.
  • Til að bregðast við nýjum aðstæðum vegna Covid-19 var settur aukinn kraftur í að fjölga möguleikum á rafrænum undirritunum. Notkun á rafrænum undirritunum þrefaldaðist á milli ára.
  • Ánægja með stafrænar lausnir bankans er mikil og notkun þeirra heldur sífellt áfram að aukast.
  • Í öllum helstu bankaaðgerðum fyrirtækja, s.s. í innlendum og erlendum greiðslum og innheimtu reikninga, er sjálfsafgreiðsla fyrirtækja um 98%.
  • Í um 99% tilvika nota viðskiptavinir stafrænar lausnir til að greiða reikninga og millifæra.
  • Viðskiptavinum var boðið að panta tíma, ýmist fyrir ráðgjöf í gegnum síma eða afgreiðslu í útibúum. Um 28.400 tímapantanir voru skráðar á árinu.
  • Landsbankinn bauð ýmsar lausnir og úrræði fyrir viðskiptavini í greiðsluvanda. Einstaklingum var t.a.m. boðið að fresta greiðslum af íbúðalánum um allt að sex mánuði. Fyrirtækjum var jafnframt boðinn allt að sex mánaða greiðslufrestur. Umsóknarferli vegna úrræðanna var rafrænt frá upphafi.
  • Tvöfalt fleiri gerðu samning við Landsbankann um verðbréfaviðskipti árið 2020 en árið 2019.
  • Landsbankinn var annar af tveimur umsjónaraðilum hlutafjárútboðs Icelandair sem fór fram í september 2020 og heppnaðist vel.
  • Bankinn hafði umsjón með útboði Lánasjóðs sveitarfélaga á nýjum grænum skuldabréfum.
  • Í apríl 2020 tilkynnti alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings lækkun á lánshæfismati Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Lækkunin nam einu þrepi og er lánshæfismat bankans því BBB/A-2 með stöðugum horfum.
  • Á árinu 2020 var unnið að fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð bankans og var hún gefin út í janúar 2021.
  • Unnið var að undirbúningi á alþjóðlegri lánshæfiseinkunn á innlend sértryggð skuldabréf bankans, sem S&P Global Ratings gaf út í janúar 2021. Bréfin hlutu lánshæfismatið A- með stöðugum horfum.
  • Landsbankinn fékk enn betri einkunn en áður í nýju UFS-áhættumati frá Sustainalytics og lækkaði úr 17,5 niður í 13,5 stig á skala sem nær upp í 100. Landsbankinn varð þar með í 2. sæti af 382 bönkum sem fyrirtækið hafði mælt í Evrópu og starfa eingöngu innan álfunnar. Bankinn fékk einnig framúrskarandi einkunn í UFS-áhættumati Reitunar, 86 stig af 100 mögulegum. UFS vísar til umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta.
  • Við höfum kolefnisjafnað starfsemi bankans fyrir árið 2020 og hlotið hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun.
  • Landsbankinn seldi í desember 12,1% eignarhlut sinn í Stoðum hf. fyrir 3,3 milljarða króna.
  • Í nóvember seldi bankinn Landsbankahúsið á Selfossi. Starfsemi bankans verður áfram í húsinu þar til hann flytur á nýjan stað á Selfossi.
  • Mælingar ársins sýna að starfsánægja er mikil innan bankans og hefur aldrei mælst hærri.

Ársreikningur samstæðu 2020

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2020

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
19. mars 2024
Aðalfundi Landsbankans frestað til 19. apríl
Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 19. mars 2024 var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2024. Að höfðu samráði við Bankasýslu ríkisins var ákveðið að halda aðalfundinn föstudaginn 19. apríl.
Austurbakki
17. mars 2024
Tilboð Landsbankans í TM samþykkt
Landsbankinn og Kvika banki hafa komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. („TM“) á grundvelli kauptilboðs sem bankinn lagði fram í allt hlutafé félagsins þann 15. mars sl. Möguleg kaup eru m.a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Austurbakki
7. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
6. mars 2024
Sexföld umframeftirspurn eftir grænum skuldabréfum
Þann 5. mars 2024 lauk Landsbankinn við sölu á grænum skuldabréfum að fjárhæð 300 milljónir evra. Um var að ræða fjórðu útgáfu bankans á grænum skuldabréfum í evrum.
Austurbakki
5. mars 2024
Tilkynning um kaup Landsbankans á eigin hlutum – lok endurkaupatímabils 2024
Þann 15. febrúar 2024 birti Landsbankinn tilkynningu um að bankinn byðist til að kaupa hluti af hluthöfum samkvæmt endurkaupaáætlun á tímabilinu 19. febrúar 2024 til og með 4. mars 2024. Á endurkaupatímabilinu keypti Landsbankinn samtals 6.423.476 eigin hluti á genginu 12,8595, að kaupvirði 82.602.689 krónur.
Helga og Berglind
23. feb. 2024
Helga Björk hættir sem formaður á aðalfundi Landsbankans í mars
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, sem hefur setið í bankaráði frá árinu 2013 og verið formaður þess frá árinu 2016, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bankaráði á aðalfundi bankans 20. mars nk. Þá mun Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs, sem setið hefur í bankaráði frá árinu 2016, heldur ekki gefa kost á sér og lætur af störfum í bankaráði á sama tíma.
Austurbakki
16. feb. 2024
Landsbankinn með staðfest vísindaleg markmið um samdrátt í losun
Markmið Landsbankans um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hafa verið samþykkt af Science Based Targets initiative (SBTi). Við erum fyrsti bankinn á Íslandi til að ná þessum áfanga.
Fjölskylda
15. feb. 2024
Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans komin út
Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans fyrir árið 2023 er komin út. Þar er fjallað um það sem hæst bar hjá bankanum á árinu, framfarir í þjónustu og rekstri, góðan árangur við fjármögnun, trausta áhættustjórnun, öfluga sjálfbærnivinnu og ýmislegt fleira.
Austurbakki
15. feb. 2024
Landsbankinn nýtir heimild til kaupa á eigin hlutum
Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að nýta heimild til kaupa á eigin hlutum í bankanum sem veitt var á aðalfundi bankans 23. mars 2023. Samkvæmt endurkaupaáætluninni munu kaupin nema að hámarki 54 milljónum hluta eða sem nemur 0,23% af útgefnu hlutafé.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur