Landsbankinn gerir sátt við Samkeppniseftirlitið og ræðst í aðgerðir til að efla samkeppni
Landsbankinn hefur, fyrstur íslensku bankanna, gert sátt við Samkeppniseftirlitið sem felst í að bankinn ræðst í aðgerðir til að efla samkeppni á sviði almennrar viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki. Markmið sáttarinnar er að draga úr skiptikostnaði í fjármálaþjónustu, stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi viðskiptavina og vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á viðskiptabankamarkaði.
Landsbankinn hefur átt gott samstarf við Samkeppniseftirlitið við að greina samkeppnisréttarlegar áskoranir á markaði fyrir viðskiptabankastarfsemi og móta aðgerðaráætlun til að örva samkeppni. Þær aðgerðir sem bankinn ræðst í eru afrakstur þeirrar vinnu. Það er mat bankans að aðgerðirnar styrki stöðu og réttindi viðskiptavina, auki gagnsæi og ýti undir frekari tækniþróun í viðskiptabankastarfsemi. Hluti af samstarfinu hefur falið í sér að innleiða þær aðgerðir sem fjallað er um í sáttinni og eru margar þeirra þegar komnar til framkvæmda.
Þær aðgerðir sem bankinn ræðst í eru eftirfarandi:
- Uppgreiðslugjöld verða ekki lögð á uppgreiðslur skuldara inn á nein ný og útistandandi lán einstaklinga og smærri fyrirtækja sem bera breytilega vexti.
- Þóknun við flutning bundins séreignasparnaðar frá bankanum mun ekki fara yfir tiltekin hámörk.
- Yfirtaka íbúðaláns verður ekki háð því að kaupandinn færi önnur bankaviðskipti sín til bankans.
- Viðskiptavinum verður auðveldað að færa bankaviðskipti sín milli banka. Val, þróun og innleiðing kerfa og tæknilegra úrlausna mun miða að þessu og þjónustukannanir nýttar til að bera kennsl á áherslur viðskiptavina í tengslum við þetta og mun bankinn bregðast við þeim.
- Viðskiptavinir verða upplýstir sérstaklega um verulegar breytingar á vöxtum og verðskrá áður en þær eiga sér stað, til að gefa viðskiptavinum svigrúm til þess að færa viðskipti sín ef þeir svo kjósa.
- Tekið verður upp upplýsingatækniviðmót (e. API) sem gerir þriðju aðilum kleift að setja upp samanburðarvefsíðu sem virkjað gæti skilvirkara neytendaaðhald.
- Tilteknir skilmálar íbúðalána sem fela í sér verulega bindingu verða ekki virkjaðir.









