Árs- og sjálfbærniskýrslunni er skipt í fjóra kafla. Í kaflanum um stjórn og skipulag má finna ávörp formanns bankaráðs og bankastjóra, upplýsingar um stefnu og stjórnarhætti og yfirlit yfir helstu fréttir ársins 2021.
Í kaflanum um ánægða viðskiptavini er fjallað um nýjar lausnir fyrir viðskiptavini, nýjungar í þjónustu, aukna ánægju og stóraukin viðskipti með hlutabréf og sjóði, svo nokkuð sé nefnt. Sérstaklega er fjallað um hvernig bankinn er í fararbroddi við að nýta gögn sem verða til í rekstri bankans til að bjóða enn betri þjónustu, auk þess sem fjallað er um aukna hættu af netárásum og aukinn viðbúnað vegna þeirra.
Kaflinn um sjálfbærni er mjög efnisríkur. Fjallað er ítarlega um helstu sjálfbærniverkefni okkar árinu en á árinu áætluðum við m.a. losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum okkar í fyrsta sinn, gáfum út tvo græna skuldabréfaflokka og sjálfbærnimerki bankans fyrir sjálfbæra fjármögnun fyrirtækja leit dagsins ljós. Fjallað er um kolefnisspor, mannauðsmál, jafnrétti og fræðslu, auk þess sem farið er yfir fjölbreytt samstarf okkar og stuðning við samfélagið.
Í kaflanum um fjármál og ársreikning er að finna ítarlegar upplýsingar um rekstur, fjárhag, fjármögnun og áhættustýringu bankans og er áhersla lögð á myndræna framsetningu. Fjallað er um afkomu og arðsemi, auknar þjónustutekjur, skilvirkari rekstur og fleira.
Í skýrslunni eru auk þess stuttir pistlar frá starfsfólki þar sem þau fjalla um starf sitt hjá bankanum.
Pillar III áhættuskýrsla bankans kemur einnig út í dag og er hún aðgengileg í kaflanum um áhættustjórnun bankans.