Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, segir: „Í ljósi þeirrar efnahagslegu óvissu sem nú ríkir vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar leggur bankaráð til að ákvörðun um arðgreiðslu verði frestað til framhaldsaðalfundar. Tæplega 40% landsmanna og um þriðjungur af fyrirtækjum í landinu eru í viðskiptum við Landsbankann. Bankinn er vel í stakk búinn til að takast á við þær áskoranir sem nú blasa við og með því að fresta ákvörðun um arðgreiðslu til framhaldsaðalfundar eykst svigrúm bankans til að styðja við viðskiptavini sína enn frekar.“
Bankaráð hafði áður haft í hyggju að leggja til að greiddur yrði arður til hluthafa sem næmi 0,40 krónu á hlut vegna rekstrarársins 2019 í tveimur jöfnum greiðslum á árinu 2020. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar væri 9.450 milljónir króna, eða sem samsvarar 52% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2019. Frá árinu 2013 hefur Landsbankinn alls greitt um 142 milljarða króna í arð og hefur fjárhæðin að stærstum hluta runnið í ríkissjóð.
Í tillögum bankaráðs kemur einnig fram að gerð er tillaga að óbreyttu bankaráði og að Helga Björk Eiríksdóttir verði áfram formaður bankaráðs. Þá er lagt til að þóknun til bankaráðsmanna verði óbreytt milli ára.