Lands­bank­inn tek­ur þátt í gerð al­þjóð­legs lofts­lags­mæl­is fyr­ir fjár­mála­fyr­ir­tæki

Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum, segir að eitt viðamesta verkefni sem bankar og fjármálafyrirtæki standi frammi fyrir í samhengi samfélagsábyrgðar sé að meta og greina frá loftslagsáhrifum í gegnum lána- og eignasöfn sín.
4. mars 2020

Það er aukin krafa frá markaðinum að bankar mæli og greini frá þessari losun segir Aðalheiður. „Þar sem bankar, eðli starfsemi sinnar vegna, losa lítið magn kolefnis í gegnum beinan rekstur þá liggja tækifærin til að vinna að markmiðum Parísarsamkomulagsins ekki í beinum rekstri heldur í loftslagsáhrifum þeirra verkefna sem þeir kjósa að lána til eða fjárfesta í. Það hefur reynst erfitt fyrir banka um allan heim að mæla þessi áhrif. Í fyrra gerðist Landsbankinn aðili að alþjóðlega verkefninu PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials) sem miðar að því að búa til loftslagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum og er ætlað að gera þeim kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni þeirra. Verkefnið hófst í Hollandi og hafa PCAF-mælar verið gerðir fyrir fjármálafyrirtæki þar í landi og fyrir banka í Norður-Ameríku. Verkefnið miðar að því að búa til alþjóðlegan loftslagsmæli til þess að fjármálafyrirtæki um heim allan geti mælt þessa kolefnislosun á vísindalegan og samræmdan hátt.“ Landsbankinn er í þróunarhópi PCAF fyrir alþjóðlega mælinn en gert er ráð fyrir að sú vinna taki um þrjú ár.

Samfélagsábyrgð hluti af kjarnastarfsemi

Til þess að hafa sem mest áhrif er mikilvægt að samfélagsábyrgð sé hluti af kjarnastarfsemi hvers fyrirtækis. Hjá bönkum snýr það til dæmis að fjárfestingum og lánastarfsemi. Hjá Landsbankanum hefur verið lögð áhersla á innleiðingu ábyrgra fjárfestinga og að auka þekkingu á grænum skuldabréfum og svokallaðri regnbogafjármögnun, þar sem fjármagni er m.a. beint í umhverfisvæn og félagsleg verkefni.

„Á dögunum höfðu Markaðir Landsbankans til að mynda umsjón með grænni skuldabréfaútgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga sem heppnaðist vel. Afrakstri skuldabréfaútboðsins verður varið til að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftlagsbreytingum. Í þeirri útgáfu voru í fyrsta skipti á Íslandi gefin út græn skuldabréf á betri kjörum en hefðbundin skuldabréf sem gefin voru út á sama tíma. Grænu skuldabréfin voru gefin út með 1,35% vöxtum (verðtryggð) en sama dag gaf Lánasjóðurinn út hefðbundin skuldabréf á ávöxtunarkröfunni 1,40%. Þetta útboð er vonandi merki þess að fjárfestar séu reiðubúnir til þess að koma að fjármögnun umhverfisvænni verkefna á lægri kjörum en fjármögnun annarra verkefna. Þess vegna skiptir orðið miklu máli fyrir banka að vera með samfélagsábyrgð sem hluta af sinni kjarnastarfsemi til þess að geta svarað kalli markaðarins um samfélagslega ábyrg verkefni.

Samfélagsábyrgðin snertir á svo mörgu í okkar daglega starfi allt frá því að tryggja jafnrétti á vinnustað til netöryggismála, í öllu samstarfi við hagaðila og í því að veita góða bankaþjónustu.

Mikilvægur hluti af samfélagslegri ábyrgð banka er svo auðvitað að tryggja traustan rekstur til að skila ávinningi til viðskiptavina, samfélagsins og eigenda,“ segir Aðalheiður.

Alþjóðlegar sjálfbærnileiðbeiningar fyrir banka

Landsbankinn var í hópi 130 banka sem skrifaði undir viðmið um ábyrga bankastarfsemi í höfuðstöðum Sameinuðu þjóðanna í september síðastliðnum. Þetta er viðamikið verkefni á vegum UNEP FI (United Nations Environment Programme – Finance Initiative) og markmiðið er að tengja fjármálastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. „Þetta er í fyrsta sinn sem settar eru alþjóðlegar leiðbeiningar fyrir banka um samþættingu sjálfbærniviðmiða á öllum stigum bankastarfsemi. Samtals stýra þessir bankar rúmlega þriðjungi þess fjármagns sem er í umferð í bankakerfi heimsins. Verkefnið getur því haft víðtæk áhrif. Viðmiðin hjálpa bönkunum að greina hvernig beita megi starfsemi þeirra í þágu heimsmarkmiðanna, setja mælanleg og tímasett markmið og greina frá þeim opinberlega. Þetta er góður vettvangur til að læra af öðrum, tileinka sér það sem vel hefur gengið og veitir einnig samanburð á milli banka,“ segir Aðalheiður. Hún bendir á að Landsbankinn fylgi með markvissum hætti þremur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: jafnrétti kynjanna (nr. 5), góða atvinnu og hagvöxt (nr. 8) og ábyrga neyslu og framleiðslu (nr. 12).

Í 6. sæti af 376 bönkum

Aðalheiður segir að kröfur fjárfesta um að fyrirtæki sýni fram á samfélagsábyrgð sína hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Til að bregðast við þessu fékk Landsbankinn óháð mat þriðja aðila á samfélagsábyrgð bankans haustið 2019 og hlaut bankinn UFS- áhættumat frá alþjóðlega greiningafyrirtækinu Sustainalytics í október. Með UFS-þáttum er átt við það hvernig fyrirtæki gæta að umhverfislegum og félagslegum áhrifum í starfsemi sinni ásamt stjórnarháttum. „Við vorum ánægð með útkomuna en Landsbankinn var í 6. sæti af 376 bönkum sem Sustainalytics hefur mælt í Evrópu sem sýnir að við séum á réttri leið í okkar nálgun. Þessi árangur næst ekki öðruvísi en með því að innleiða UFS-þætti í kjarnastarfsemina, enda er slík úttekt umfangsmikil og tekur til allrar starfsemi fyrirtækis.

Það er vel þess virði að fjárfesta í þessari vinnu þar sem góð niðurstaða úr UFS-úttekt þriðja aðila veitir bönkum greiðari aðgang að ódýrara fjármagni.“

Mikilvægt að setja mælanleg markmið og greina frá niðurstöðum

Aðalheiður bendir á það það þurfi að veita góðar og aðgengilegar upplýsingar um ófjárhagslega þætti eða lykilupplýsingar bankastarfsemi. Slík upplýsingagjöf skapi trúverðugleika en helsta markmið skýrslugjafar um samfélagsábyrgð sé að skapa gagnsæi og byggja þannig upp traust. Einnig þurfi að setja sér mælanleg markmið. „Við hjá Landsbankanum gefum út ítarlega samfélagsskýrslu á hverju ári þar sem fjallað er um áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag og sjá má samanburðarhæfar mælingar frá ári til árs. Næsta skýrsla kemur út í mars. Skýrslurnar eru skrifaðar eftir Global Reporting Initiative viðmiðunum og gilda sem framvinduskýrslur til UN Global Compact, samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins um að sýna samfélagsábyrgð í verki. GRI-viðmiðin leiðbeina fyrirtækjum um að miðla upplýsingunum á gagnsæjan, trúverðugan og samanburðarhæfan hátt. Áskoranir í samfélagsábyrgð fyrirtækja eru margar, ekki síst í umhverfi þar sem einblínt er á ársfjórðungslegan árangur í stað árangurs til lengri tíma en nauðsynlegt er að innleiða langtímahugsun í verklag fyrirtækja. Þannig næst besti árangurinn fyrir umhverfi, samfélag og rekstrargrundvöll fyrirtækjanna sjálfra,“ segir Aðalheiður.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur