Smáforritið FaceApp hefur farið eins og eldur í sinu um netheima undanfarna daga. Hollywood stjörnur, körfuboltahetjur og annar hvor vinur þinn á Facebook hefur hlaðið niður appinu og birt mynd af sér í hárri elli.
FaceApp er núna eitt vinsælasta smáforritið í heiminum. Appið er vissulega skemmtilegt – hægt er að hlaða inn mynd af einstaklingi í það og með hjálp háþróaðra algóriþma má skipta um hárlit og hárgreiðslu, nota alls konar linsur (e.filters) sem breyta ásýnd viðkomandi og svipbrigðum og sjá hvernig ellin leikur hann. En vita einstaklingar hvernig myndirnar þeirra eru notaðar af forritinu eftir að þeim hefur verið hlaðið þar inn?
Með því að samþykkja skilmála og persónuverndarstefnu FaceApp gefa notendur appinu víðtækan rétt til að nota myndirnar þeirra og nöfn í hvaða tilgangi sem er jafn lengi og smáforritið vill. Þessi réttur smáforritsins er endalaus og óafturkallanlegur samkvæmt 5. gr. skilmála FaceApp þar sem segir m.a. í lauslegri þýðingu:
„Þú veitir FaceApp eilífan, óafturkallanlegan, óafturkræfan, opinn, framseljanlegan, varanlegan, gjaldfrían rétt og leyfi sem nær um allan heim til að nota, endurgera, breyta, aðlaga, birta, þýða, búa til afleidd verk, dreifa, framkvæma og birta opinberlega efni notanda, og hvaða nafn, notendanafn eða líkingu af mynd sem tengist efni notanda, í öllum fjölmiðlum sem nú eru þekktir eða kunna að verða þróaðir, án endurgjalds. Þegar þú birtir eða deilir efni á eða í gegnum þjónustuna áttar þú þig á að efni þitt og tengdar upplýsingar (s.s. notendanafn þitt, staðsetning eða prófílmynd) verða sýnilegar almenningi.“
Mikilvægt er að notendur átti sig á því að eftir notkun forritsins eru myndir af þeim ekki lengur þeirra eign – heldur forritsins. Appið á réttinn að öllum myndum sem yfir 100 milljón notendur hafa hlaðið inn í forritið í dag og getur gert við þær það sem það vill. Nákvæm kortlagning á andliti einstaklinga er mjög verðmæt vara í stafrænum heimi. Hægt er að nota andlitsgreiningartækni eins og smáforritið styðst við í málefnalegum og ómálefnalegum tilgangi. Tæknin er notuð til að aflæsa snjallsímum, í öryggis- og eftirlitstilgangi hjá löggæsluyfirvöldum og jafnvel hafa tiltekin ríki notað andlitsgreiningartækni til að greina og smána fólk fyrir refsiverða háttsemi.
Því miður eru einhliða skilmálar sem þessir ekki óalgengir þegar kemur að ókeypis forritum og oftast eru þeir afar óhliðhollir neytendum sem hvorki lesa þá né huga að persónuvernd sinni eða því sem gerist eftir að notkun á forritinu lýkur. Viðvörunarbjöllur hringdu hjá mörgum vegna þess að FaceApp er í eigu rússnesks félags að nafni Wireless Lab, m.a. hjá bandarísku alríkislögreglunni. Skilmálar annarra forrita og samfélagsmiðla í eigu bandarískra félaga sem við notum daglega ganga jafn freklega á persónuvernd neytenda eins og áður hefur verið fjallað um.
Hvort sem FaceApp fær aðgang að öllum myndum af notanda eða bara þeim sem er bætt inn í appið ættu þau miklu viðbrögð sem hafa komið fram vegna FaceApp smáforritsins að hvetja notendur til að huga betur að friðhelgi og vernd persónuupplýsinga þeirra á netinu í öllum smáforritum, samfélagsmiðlum og tækjum sem þeir nota.