Miklu munar á leiguverði eftir hverfum og landshlutum
Það gefur augaleið að tölfræðilegar upplýsingar frá stærri svæðum eru alltaf áreiðanlegri en af minni svæðum. Einnig ber að hafa í huga að upplýsingar Þjóðskrár byggja einungis á leigusamningum sem hefur verið þinglýst. Öflun húsaleigubóta er helsti hvati til þinglýsingar og því er líklegt að minni hvati sé til þess að þinglýsa samningum um allra stærstu og allra minnstu eignir.
Í desember 2016 byggðu upplýsingar Þjóðskrár á um 300 leigusamningum af öllu landinu. Hæsta meðalleiguverð í desember var 2.893 kr. á fermetra fyrir tveggja herbergja íbúð í austurhluta Reykjavíkur og lægsta leiguverðið var 1.085 kr. fyrir fjögurra til fimm herbergja íbúð á Ísafirði.
Niðurstöður Þjóðskrár sýna yfirleitt hæsta leiguverðið á fermetra fyrir tveggja herbergja íbúðir og það lægsta fyrir stærstu íbúðirnar. Til þess að skoða leiguverðin nánar verða hér sýndar upplýsingar um mánaðarleigu fyrir 60 m2 tveggja herbergja íbúðir, 85 m2 þriggja herbergja íbúðir og 110 m2 fjögurra til fimm herbergja íbúðir.
Tveggja herbergja íbúðir
Greinilegt er að hæsta leiguverðið á tveggja herbergja íbúðum er í vesturhluta Reykjavíkur, rúmlega 170 þús. kr. fyrir íbúð af þessari stærð. Þvínæst kemur austurhluti Reykjavíkur með um 160 þús. kr. Lægsta verðið er aftur á móti á Suðurnesjum, 95 þús. kr.
Þriggja herbergja íbúðir
Leiguverð fyrir þriggja herbergja íbúðir er langhæst í vesturhluta Reykjavíkur, um 220 þús. kr. Leiguverð er svo í kringum 170-180 þús. kr. víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Langlægsta verðið er á Vestfjörðum, tæplega um 90 þús. kr. fyrir íbúð af þessari stærð.
Fjögurra til fimm herbergja íbúðir
Stærstu íbúðirnar eru dýrastar í austurhluta Reykjavíkur, um 230 þús. kr. fyrir 110 m2 íbúð. Næsthæsta verðið er í Breiðholti. Lægsta leiguverðið eru Suðurlandi, Vesturlandi og Akureyri, um 130 þúsund.