Fyrstu skref­in í verð­bréfa­fjár­fest­ing­um

26. ágúst 2022 - Elín Dóra Halldórsdóttir

Áður en byrjað er að fjárfesta í verðbréfum er mikilvægt að hafa ákveðin lykilatriði á hreinu og vera meðvituð um áhættuna.

Það er mikilvægt að spara, bæði til skamms og langs tíma. Verðbréfafjárfestingar, svo sem fjárfesting í hlutabréfum, skuldabréfum og sjóðum sem fjárfesta aðallega í verðbréfum, er ein leið til að byggja upp sparnað. Sparnaður þar sem fjárfest er í verðbréfum hentar fyrst og fremst til að ná betri ávöxtun til lengri tíma litið. Ástæðan er sú að virði verðbréfa sveiflast og þeim fylgir þar með meiri áhætta. Ef þú ætlar að spara til skemmri tíma, svo sem til að eiga varasjóð ef eitthvað kemur upp á, er mælt með öðrum kostum en fjárfestingu í verðbréfum.

Elín D. Halldórsdóttir

Fræðslumyndband: Almennt um verðbréfafjárfestingar

Verðbréfum fylgir alltaf einhver áhætta og getur virði þeirra hækkað eða lækkað eftir því hvernig gengur á mörkuðum. Virðið getur þannig sveiflast, lækkað tímabundið og hækkað aftur en almennt má segja að áhætta og ávöxtun fylgjast að. Því meiri sem áhættan er, því meiri von er um hærri ávöxtun, en hættan á að verða fyrir tapi er að sama skapi meiri. 

Á hinn bóginn er ljóst að sumir stunda það að kaupa hlutabréf með það fyrir augum að selja þau stuttu síðar með hagnaði. Það er auðvitað mögulegt að ávaxta peninga hratt með þessum hætti en áhættan er svo sannarlega fyrir hendi auk þess sem það krefst mikillar þekkingar og að fólk fylgist vel með mörkuðum. Það þarf einnig að hafa í huga að við hlutabréfaviðskipti eru teknar þóknanir. Ef þú kaupir oft og selur geta þóknanirnar hlaðist upp og dregið úr heildarávöxtun.

Flestir fjárfesta í skuldabréfum í gegnum sjóði

Skuldabréf eru að jafnaði áhættuminni eignaflokkur en hlutabréf þar sem virði þeirra sveiflast almennt ekki eins mikið. Flestir fjárfesta í skuldabréfum í gegnum sjóði.

Það eru til ýmsar leiðir til að draga úr áhættu eða verðsveiflum á eignasafni í verðbréfum. Það er t.d. áhættuminna að eiga í mörgum hlutabréfum fremur en einu og í mörgum geirum atvinnulífsins og í mörgum löndum. Svo má draga enn frekar úr áhættunni með því að blanda saman ólíkum eignaflokkum eins og dreifðri hlutabréfaeign með dreifðri skuldabréfaeign. Þetta getur þú annað hvort gert upp á eigin spýtur, með því að fjárfesta í ólíkum sjóðum eða með því að fjárfesta í blönduðum sjóði þar sem búið er að setja saman fyrir þig vel dreift eignasafn í ólíkum eignaflokkum.

Áður en þú byrjar að fjárfesta á verðbréfamarkaði ættir þú að íhuga vel nokkra þætti:

1. Markmið og tímarammi fjárfestingar

Hvert er markmiðið með fjárfestingunni og til hve langs tíma ætlar þú að fjárfesta? Eftir því sem tímarammi fjárfestingarinnar er lengri, því meiri áhættu er hægt að taka þar sem þú getur beðið af þér verðsveiflur. En það þarf líka að hugsa markmiðið, hvort það sé til dæmis að eignin haldi verðgildi sínu miðað við verðbólgu eða einfaldlega að fá eins góða ávöxtun og mögulegt er.

2. Viðhorf til áhættu

Hversu mikla áhættu þolir fjárhagurinn þinn? Hversu mikla áhættu ert þú persónulega til í að taka og þolir þú tap eða lækkun á eignasafninu þínu um óákveðinn tíma? Sumir eru tilbúnir til að taka mikla áhættu og kippa sér ekki upp við miklar ávöxtunarsveiflur meðan aðrir þola þessar sveiflur illa, kjósa því minni sveiflur og lægri ávöxtun. Viðhorf til áhættu getur svo breyst með aukinni þekkingu og reynslu af verðbréfum og verðbréfaviðskiptum.

3. Þekking á verðbréfamarkaðinum

Ef þú þekkir verðbréfamarkaðinn lítið gæti verið skynsamlegt að taka minni áhættu í upphafi og finna út með reynslunni hversu mikla áhættu þú þolir. Það getur líka verið betri kostur fyrir óreynda að fjárfesta í hlutabréfasjóðum fremur en í stökum hlutabréfum og vera þannig með dreifðari áhættu og minni verðsveiflur, að minnsta kosti fyrir stærsta hluta eignasafnsins.

4. Fjárhagsstaða

Hversu vel þolir þú að takast á við tap? Eftir því sem fjárhagsstaða fólks er betri, því meiri áhættu getur það tekið, að minnsta kosti með hluta af eignasafni sínu. Ef þú mátt alls ekki við því að tapa peningum ættir þú að hugsa um að fjárfesta í áhættuminni eignum.

5. Eignadreifing

Það er ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfu heldur dreifa þeim bæði í mismunandi eignaflokka og innan eignaflokka. Þau sem ekki hafa sérfræðiþekkingu á mörkuðum fjárfesta gjarnan í blönduðum sjóðum sem sérfræðingar stýra og nýta þekkingu sína til að setja saman eignasafn eftir fyrirfram ákveðnum markmiðum.

Greinin var uppfærð 26. ágúst 2022.

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. ágúst 2022
Hvernig kaupi ég hlutabréf?
Það er mjög einfalt að kaupa hlutabréf. Til dæmis er hægt að fjárfesta í hlutabréfum einstakra félaga og margskonar sjóðum í netbanka Landsbankans og í Landsbankaappinu á einfaldan hátt og fylgjast þar með þróun fjárfestingarinnar.
26. ágúst 2022
Kaup í sjóðum getur verið einfaldasta leiðin til að dreifa áhættunni
Sjóðir eru í stuttu máli safn margra fjárfestinga og er ætlað að einfalda fólki dreifingu eigna til að draga úr áhættu og sveiflum. Margar tegundir sjóða eru í boði og fylgja þeir ólíkum markmiðum. Sumir sjóðir stefna til dæmis að því að lágmarka áhættu eða sérhæfa sig í tilteknum atvinnugreinum eða hugmyndafræði, s.s. sjálfbærni.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur