Samfélög, hagkerfi og tækni hafa gengið í gegnum gífurlega hraðar breytingar á síðari áratugum 20. aldar og á 21. öld. Þær hafa þegar haft og eiga eftir að hafa mikil áhrif á vinnustaði. Til dæmis hefur hreyfanleiki í atvinnulífinu aukist vegna þess að fólk skiptir oftar um vinnu og starfssvið en áður. Áður fyrr leitaði fólk meira í stöðugleika í starfi og skilgreindi sig jafnvel á margan hátt út frá starfi sínu. Í dag er algengt að fólk skipti um vinnu ef það er óánægt og leiti sér að starfi sem veitir því hamingju og uppfyllir þarfir þeirra. Umræðan um að störf séu að hverfa og breytast út af hröðum tæknibreytingum hefur einnig verið áberandi. Sú færni að hafa getu og hæfni til að byggja upp sína eigin þekkingu á markvissan hátt, er því orðin mjög mikilvæg til þess að ná árangri á vinnustöðum nútímans.
Tökum ekki endilega eftir því þegar við lærum
Þegar talað er um nám eða sögnina „að læra“ er líklegt að það fyrsta sem komi upp í hugann sé hin hefðbundna kennslustofa með borðum, stólum og nemendum sem glósa efnið og þekkinguna sem kennarinn miðlar til þeirra. Þetta hefðbunda form er sannarlega ennþá hluti af námi en er bara ein leið af svo ótal mörgum til að afla sér þekkingar. Hvern einasta dag nýtum við þessar fjölmörgu og fjölbreyttu leiðir en við tökum bara ekki eftir því. Við erum að læra á óformlegan hátt og ómeðvitað. Til dæmis þegar við lesum grein á netinu, horfum á YouTube eða spjöllum við samstarfsfólk. Við lærum eitthvað nýtt af öllum þessum upplifunum án þess að hugsa um það á þann hátt að við séum að öðlast þekkingu. Ef við hugum hins vegar markvisst að því að sækja þekkinguna, hvort sem er á formlegan hátt (t.d. með því að sitja námskeið) eða óformlegan (horfa á fyrirlestur á YouTube) þá getur ávinningurinn orðið mikill fyrir okkur, bæði í okkar faglegu og persónulegu þróun.
Tökum frá tíma til að læra
Lykillinn er að huga markvisst að fræðslunni og búa sér til tíma til að sækja hana. Spyrja sig og leita svara við spurningum eins og: Hver eru markmiðin mín og hvert stefni ég? Hvað kann ég og hvar liggja styrkleikar mínir? Hvaða færni þarf ég að hafa til að halda í við nútímann og svo framvegis. Það er hægt að ákveða eitt kvöld í viku þar sem sest er upp í sófa undir teppi með góða bók eða lesbretti, hlusta á hlaðvarp eða hljóðbók í göngutúrnum og í strætó og svo framvegis.
Erum ekki stanslaust að byrja upp á nýtt
Að vera meðvitaður um að afla sér þekkingar þýðir ekki að við séum stanslaust að byrja upp á nýtt. Við erum einungis að byggja ofan á það sem við búum að nú þegar, samþætta nýja þekkingu við þá sem fyrir er. Við búum alltaf að því sem við höfum lært í lífi og starfi. Sumir eru með fimm háskólagráður á meðan aðrir eru með 40 ára starfsreynslu, sumir eru með hvoru tveggja og enn aðrir eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum eftir útskrift. Að öðlast þá færni, að byggja upp eigin þekkingu á markvissan hátt, er eitthvað sem við erum öll fær um. Ekki bara þau sem yngri eru og með tæknina á hreinu, uppfull af nýjum hugmyndum. Fólk sem er með t.d. 20-40 ára starfsreynslu býr að gríðarlega mikilli þekkingu sem er ómetanleg fyrir vinnustaðina og mikils virði fyrir aðra að læra af. Það er aldrei of seint eða of snemmt fyrir neinn að byggja upp sína þekkingu og stýra þannig eigin þróun í lífi og starfi.
Sjá einnig