Við fengum Bergþóru Sigurðardóttur, starfsþróunarstjóra í mannauðsdeild Landsbankans, til að gefa þeim sem eru á leiðinni í atvinnuviðtal nokkur góð ráð.
Ráð nr. 1: Stundvísi er dyggð
„Það er mjög mikilvægt að mæta á réttum tíma. Ef þú tefst af algjörlega óviðráðanlegum orsökum skaltu láta vita af því, helst með góðum fyrirvara,“ segir Bergþóra.
Ráð nr. 2: Snyrtilegur klæðnaður
Landsbankinn er þjónustufyrirtæki og starfsmenn þurfa að vera snyrtilegir til fara. „Hjá fyrirtækjum á borð við Landsbankann er ætlast til að umsækjendur komi snyrtilega til fara í viðtölin. Ágæt regla er að klæðast fötum sem þú telur líklegt að þú munir klæðast ef þú hlýtur starfið og jafnvel vera aðeins fínni en það.“
Ráð nr. 3: Kynntu þér fyrirtækið (en ekki þykjast vita allt)
„Það er mjög mikilvægt að mæta vel undirbúinn í viðtalið. Þeir sem taka viðtalið þurfa að finna að viðkomandi hafi kynnt sér fyrirtækið, starfið og ekki síst markaðinn sem það starfar á. Ég mæli líka með því að umsækjandi sé tilbúinn með 1-2 spurningar til að bera fram í viðtalinu. Þannig getur hann sýnt að hann hafi sett orku og tíma í að kynna sér fyrirtækið og hafi mikinn áhuga á starfinu. Vissulega er hægt er að ganga of langt í þessu og þykjast vita nánast allt um fyrirtækið og starfið. Það er þó hvorki traustvekjandi né trúverðugt og því yfirleitt ekki mjög árangursrík nálgun,“ segir Bergþóra.
Ráð nr. 4: Undirbúðu þig fyrir fyrirsjáanlegu spurningarnar
Atvinnuviðtöl innihalda bæði fyrirsjáanlegar og óvæntar spurningar. „Í flestum atvinnuviðtölum er rýnt í ferilskrána þína og til dæmis spurt út í nám og fyrri störf. Eins er oft spurt hvers vegna þú sækist eftir starfinu, hvers vegna þú telur að þú sért rétta manneskjan í starfið, hvaða væntingar þú hafir til þess og svo framvegis. Svörin við þess háttar spurningum er auðvelt að æfa heima,“ segir Bergþóra.
Ráð nr. 5: Haltu ró þinni þegar erfiðu spurningarnar koma
Aðrar spurningar eru erfiðari og ekki eins gott að sjá þær fyrir. Slíkar spurningar eru hugsaðar til að sjá hvernig umsækjandinn bregst við undir álagi. Bergþóra segir: „Þegar auglýst er eftir starfsfólki er bæði verið að leita að fagþekkingu en líka að öflugum og ráðagóðum samstarfsfélaga. Þess vegna geta sumar spurningar verið krefjandi. Í þeim tilvikum er mikilvægt að umsækjandinn haldi ró sinni og svari af hreinskilni.“
Ráð nr. 6: Vertu þú sjálf/-ur
Tilgangurinn með atvinnuviðtali er að kynnast umsækjandanum og meðal annars reyna að leggja mat á hvers konar starfskraftur og samstarfsfélagi hann er. „Þó maður vilji sýna sínar bestu hliðar er mikilvægt að vera maður sjálfur. Leyfðu fólki að kynnast þér eins vel og hægt er í stuttu viðtali. Vertu einlægur,“ segir Bergþóra.
Ráð nr. 7: Talaðu til allra í viðtalinu, náðu augnsambandi.
Oft eru tveir, jafnvel þrír þátttakendur í viðtalinu af hálfu vinnustaðarins. „Þú skalt passa að beina orðum þínum til allra sem eru viðstaddir. Náðu augnsambandi við alla þannig að fólk finni að þú sért að tala til allra í herberginu, jafnvel þó það sé bara einn sem spyr flestra spurninganna. Það er vont ef umsækjendur klikka á þessu og getur gefið þá mynd af viðkomandi að hann sé klaufi í samskiptum,“ segir Bergþóra.
Ráð nr. 8: Ekki teygja lopann
„Segðu nóg, en ekki of mikið,“ segir Bergþóra. „Þú þarft ekki að segja frá öllum smáatriðum sem urðu til þess að þú sóttir um þetta tiltekna starf. Athugaðu að frásagnarstíll og ofgnótt orða getur líka verið vísbending um að þú sért lengi að koma þér að efninu og kjarna málsins og það er ókostur í starfi.“
Á vef Landsbankans er hægt að sækja um laus störf og senda inn almenna umsókn um starf. Þar eru líka nokkur ráð um hvernig á að gera góða ferilskrá.