Vísitala íbúðaverðs mjakast upp á við og fyrstu kaupendum fjölgar
Vísitalan hækkaði um 0,5% á milli mánaða í desember. Í nóvember hækkaði hún um 0,1% og um 0,9% í október. Sérbýlishluti vísitölunnar hækkaði um 2,1% og fjölbýlishlutinn lækkaði um 0,02%. Almennt sveiflast sérbýlishluti vísitölunnar meira en fjölbýlishlutinn, bæði vegna þess að mun færri samningar eru gerðir í hverjum mánuði um sérbýli heldur en fjölbýli og vegna þess að sérbýli eru fjölbreyttari og verðið misjafnara milli sérbýla en fjölbýla.
Sérbýli hækkað mun meira í verði en fjölbýli á síðustu 12 mánuðum
Árshækkun vísitölunnar hefur aukist statt og stöðugt eftir að hafa náð lágmarki í 0,8% í júlí í fyrra. Hún mældist 4,5% í desember og var 3,4% í nóvember. Hún er enn mun minni en verðbólgan, sem mældist 7,7% í desember, sem gefur til kynna að á síðustu 12 mánuðum hafi húsnæðið ekki verið afgerandi drifkraftur verðbólgunnar, þótt það hafi aftur dregið vagninn á allra síðustu mánuðum. Árshækkun sérbýlis er þó komin upp í 7,5%.
Raunverðið 2% lægra en á sama tíma fyrir ári
Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað milli ára síðustu átta mánuði. Raunverð fæst með því að taka tillit til verðbólgu, en til þess notum við vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Raunverð lækkar þannig milli ára ef árshækkun íbúðaverðs er minni en árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Ársbreyting raunverðs er enn neikvæð en þó hefur dregið úr lækkuninni síðustu mánuði. Raunverðið er nú 2,0% lægra en á sama tíma í fyrra. Raunverðslækkunin var mest í júlí í fyrra þegar raunverðið var 5,9% lægra en í júlí árið áður.
Kaupsamningum fjölgar aftur milli ára
Undirrituðum kaupsamningum hefur tekið að fjölga á ný þegar fjöldinn er borinn saman við sama tíma í fyrra. Eftir að hafa fækkað milli ára samfellt frá miðju ári 2021 fjölgaði kaupsamningum um 12% milli ára í september, um 21% milli ára í október og 7% í nóvember.
Hlutdeildarlán sóttu í sig veðrið á síðasta ári og fyrstu kaupendum fjölgaði
Eftir því sem leið á síðasta ár fjölgaði hlutdeildarlánum, enda voru skilyrði vegna slíkrar lántöku útvíkkuð um mitt ár. Lánin eru ætluð fyrstu kaupendum og aðeins veitt til kaupa á nýjum íbúðum. Þau hafa því gert sitt til að fjölga fyrstu kaupendum á íbúðamarkaði á seinni helmingi ársins en þá voru þeir 36% fleiri en á fyrri helmingi ársins, og 32% af öllum kaupendum í stað tæplega 27% á fyrri helmingi.
Með því að ýta undir sölu á nýjum íbúðum, sem eru almennt dýrari en þær eldri, teljum við að hlutdeildarlánaúrræðið hafi hækkað íbúðaverð eins og það er mælt. Í mælingum á vísitölu íbúðaverðs er ekki leiðrétt fyrir aldri íbúða og því má ætla að vísitalan hækki eftir því sem hlutfallslega fleiri nýjar íbúðir seljast.
Íbúðaverð heldur áfram að mjakast upp á við þrátt fyrir skarpar vaxtahækkanir síðasta árs og viðvarandi hátt vaxtastig. Verðþróunin næstu mánuði hlýtur að ráðast af ýmsu, ekki síst hversu hratt verðbólgan hjaðnar og því hvenær má vænta vaxtalækkana. Þá geta hamfarirnar í Grindavík haft áhrif á markaðinn, en áhrifin fara verulega eftir því hvort og hvernig stjórnvöld bregðast við húsnæðisvanda Grindvíkinga. Þá hafa aðilar á hluta vinnumarkaðarins lýst því yfir að hægt yrði að semja um hófstilltar launahækkanir ef stjórnvöld stigu inn í, til dæmis með úrræðum tengdum húsnæðismarkaði.