Vinnumarkaðurinn óðum að braggast

Starfandi fólki í júlí fjölgaði um 10.200 milli ára, en fækkaði eilítið frá síðasta mánuði en þá hafði starfandi fólk aldrei verið fleira í einum mánuði í vinnumarkaðsrannsókninni. Atvinnulausum fækkaði um 4.400 frá júlí í fyrra og atvinnuleysi hefur minnkað stöðugt síðustu mánuði. Hlutfall starfandi var
Í fyrra fór atvinnuþátttaka lægst niður í 73,4% í apríl og hafði ekki verið lægri áður í sögu vinnumarkaðskönnunarinnar. Atvinnuþátttaka hefur aukist stöðugt á þessu ári og var 81,5 % nú í júlí sem er 1,3 prósentustigum meira en í júlí í fyrra.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 4,1% í júlí, sem er 2,2 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 6,1% í júlí og hafði minnkað um 1,8 prósentustig milli ára.
Frá apríl til júlí í ár er áætlað að um helmingur afskráninga af atvinnuleysisskrá hafi verið vegna ráðningarstyrkja og að án þess stuðnings hefði atvinnuleysi verið um 2,5 prósentustigum meira í júlí. Það skiptir því miklu að þau störf sem hafa orðið til með þessum hætti verði varanleg og að ekki komi bakslag í atvinnuleysi.
Samkvæmt könnun Hagstofunnar höfðu alls um 21.900 einstaklingar þörf fyrir atvinnu í júlí 2021. Sá fjöldi jafngildir 9,9% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þessum hópi voru 40% atvinnulausir og 22% tilbúnir að vinna en ekki að leita að vinnu. 9% voru í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 29% voru starfandi en samtímis vinnulitlir og vildu vinna meira. Þessi tala Hagstofunnar, um 9,9% þörf fyrir atvinnu, er töluvert hærri en mæling Vinnumálastofnunar á heildaratvinnuleysi í júlí, sem var 6,1%. Samkvæmt þröngri skilgreiningu Hagstofunnar á atvinnuleysi var það hins vegar talið vera 4,1% í júlí.
Starfandi fólki í júlí fjölgaði um 5,2% miðað við sama mánuð í fyrra. Vinnutími styttist um 0,25% á sama tíma þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 4,9% milli ára. Þetta er fjórði mánuðurinn í röð sem við sjáum fjölgun heildarvinnustunda milli ára, en þeim tók að fækka í upphafi ársins 2020 um svipað leyti og faraldurinn brast á.
Lesa Hagsjána í heild:









