Vinnumarkaðurinn búinn að ná fullum styrk
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er áætlað að um 224.300 manns hafi verið á vinnumarkaði í júní. Það jafngildir 82,9% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 216.800 starfandi og um 7.500 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 3,3% af vinnuaflinu.
Starfandi fólki fjölgaði um 10.100 milli ára í júní og atvinnulausum fækkaði um 2.700 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 80,1% í júní og hækkaði um 1,7 prósentustig frá júní 2021. Starfandi fólk hefur aldrei verið fleira samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar.
Atvinnuþátttaka hefur aukist síðustu mánuði og var 82,9% nú í júní sem er 0,6 prósentustigum hærra en í júní 2021. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 79,9% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð
Mismunandi mælingar á atvinnuleysi
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 3,3% í júní sem er 1,4 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins einnig 3,3% og hafði minnkað um 3,0 prósentustig milli ára.
Vinnutími hefur styst töluvert á undanförnum misserum, en mikið hefur hægt á þeirri þróun síðustu mánuði. Venjulegur vikulegur vinnutími var þannig 39,4 stundir nú í júní sem er 0,2 stundum styttra en í júní 2021. Sveiflur eru miklar í vinnutíma milli mánaða, en sé horft til 12 mánaða hlaupandi meðaltals er vinnutími nú rúmlega einni klukkustund styttri en hann var í upphafi ársins 2020.