Vikubyrjun 9. mars
Vikan framundan
- Eftir lokun markaða í dag birta Lánamál ríkisins mánaðarlegt rit sitt, Markaðsupplýsingar.
- Á þriðjudag birtir Ferðamálastofa talningu á fjölda erlendra ferðamanna um Leifsstöð.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslumiðlun og Vinnumálastofnun tölur um skráð atvinnuleysi.
Mynd vikunnar
Þrátt fyrir veruleg áföll í útflutningsatvinnuvegum á síðasta ári jókst afgangur af viðskiptum við útlönd milli ára. Þar lagðist ýmislegt á eitt. Innflutningur dróst saman milli ára, einnig var útflutningur á skipum og flugvélum verulegur, en meðal annars seldi WOW air fjórar þotur til Air Canada áður en félagið fór í þrot. Mikil aukning var á tekjum af innlendum hugverkaréttindum erlendis, sem má líklegast rekja til tekna af innlendum lyfja- og rannsóknarleyfum. Loks var samdráttur á hagnaði af beinum erlendum fjárfestingum hér á landi, en slíkur hagnaður kemur til frádráttar við útreikning á viðskiptajöfnuði.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Á síðasta ári var 172 ma. kr. afgangur af viðskiptum við útlönd og jókst afgangurinn um 86 ma. kr. milli ára.
- Íslenska krónan veiktist um 2,3% á móti evrunni í febrúar.
- Atvinnuleysi hefur aukist og ýmis merki eru um kólnandi vinnumarkað.
- Gistinóttum á hótelum hér á landi fjölgaði um 7,2% milli ára í janúar.
- Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hækkaði um 8% milli ára í fyrra.
- Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands birti upplýsingar um heildareignir lífeyrissjóða miðað við árslok 2019.
- Raungengi íslensku krónunnar var 1,2% lægra í febrúar en sama mánuði árið áður.
- Aflaverðmæti íslenskra skipa jókst um 17 ma. kr. milli ára í fyrra.
- Tvær tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í febrúar.
- Heimavellir stækkuðu tvo skuldabréfaflokka, Orkuveita Reykjavíkur lauk útboði á grænum skuldabréfum og Arion banki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa.