Vikubyrjun 31. október 2022
Vikan framundan
- Á þriðjudag verður útboð ríkisbréfa.
- Á miðvikudag birta Sýn og Marel árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birta Play, Reginn og Eimskip árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan gögn um vinnumarkaðinn á þriðja ársfjórðungi.
Mynd vikunnar
Ársverðbólgan stendur í 9,4% og þeir liðir sem hafa hækkað mest í verði eru bensín (26,2%) og húsnæði (17%). Matur og drykkur hafa hækkað í verði um 9,6% og föt og skór um 2,5%.
Við fjölluðum um það í vikunni að matvælaverð hefði hækkað mun minna hér á landi en í Evrópu. Þegar þróun matvöruverðs er metin út frá samræmdri vísitölu neysluverðs í september hækkaði það um 8,6% hér á landi á síðustu 12 mánuðum, um 13,8% á evrusvæðinu og 15,5% í löndum Evrópusambandsins.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Hagstofan birti á fimmtudag vísitölu neysluverðs fyrir október. Verð hækkaði um 0,67% milli mánaða, en við höfðum spáð 0,44% hækkun. Hækkunin var mest í mat og drykk og þar var það lambakjöt sem hækkaði langmest, um 16,7%. Við gáfum út Hagsjá með samanburði á verðbólgu á Íslandi og í öðrum löndum.
- Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentustig. Hækkunin var í takt við væntingar og stýrivextir á evrusvæðinu standa nú í 2%.
- Af skuldabréfamarkaði var helst að frétta að útboð ríkisvíxla (23 0118 og 23 0315) var haldið 24. október og að þann 26. október var RIKB 22 1026 á gjalddaga (73 ma.kr.)
- Af hlutabréfamarkaði var helst að frétta að Síminn, Arion banki, Festi, Eik, Íslandsbanki, Landsbankinn, Origo, Sjóvá og Skeljungur birtu árshlutauppgjör.