30. janúar 2023
Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir janúar og við eigum von á að verðbólgan lækki úr 9,6% í 9,4%.
- Á þriðjudag birtir Hagstofan tölur um gistinætur í desember.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn niðurstöður úr væntingakönnun markaðsaðila sem fór fram í síðustu viku. Erlendis er vaxtaákvörðun í Bandaríkjunum.
- Á fimmtudag birta Landsbankinn, Origo og Icelandair uppgjör. Erlendis er vaxtaákvörðun hjá Evrópska seðlabankanum og Englandsbanka.
Mynd vikunnar
Nýjum, fullbúnum íbúðum fjölgaði minna í fyrra en á árunum 2019 til 2021. Við sjáum samt ýmis merki þess að það sé nokkuð kröftug uppbygging í kortunum, m.a. þau að ófullgerðum íbúðum og starfsfólki í byggingariðnaði er að fjölga og velta í byggingariðnaði samkvæmt VSK-skýrslum er að aukast. Nánar er farið í þetta í Hagsjá um byggingarmarkaðinn sem við birtum í síðustu viku.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala launa hækkaði um 4% milli mánaða í desember. Hækkunin skýrist af launahækkunum í nýgerðum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í þeim var samið um afturvirka hækkun frá 1. nóvember, en launagögnum Hagstofunnar er ekki breytt afturvirkt þannig að launahækkunin kemur inn í vísitöluna í desember í stað nóvember.
- Seðlabankinn birti gögn um bankakerfið í desember. Úr þeim mátti m.a. lesa að hrein ný íbúðalán innlánastofnana til heimila námu einungis 7,1 ma.kr. í desember og hafa ekki verið lægri í stökum mánuði síðan í desember 2019. Öll hrein ný íbúðalántaka var í formi verðtryggðra lána, sem er ný staða. Uppgreiðslur voru meiri en ný útlán á meðal óverðtryggðra íbúðalána í fyrsta sinn síðan í desember 2016.
- Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var árstíðaleiðrétt atvinnuleysi 3,3% í desember og lækkaði um 1,6 prósentustig milli mánaða. Þar sem þetta er úrtakskönnun eiga tölurnar það til að sveiflast nokkuð milli mánaða og því betra að horfa á langtímaleitni, sem hefur haldist stöðug í 3,8% í um hálft ár.
- Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu fyrir janúar.
- Á skuldabréfamarkaði tilkynntu Lánamál ríkisins um niðurstöðu viðbótarútgáfu RIKB 26 1015 og Útgerðarfélag Reykjavíkur hélt lokað skuldabréfaútboð. Landsbankinn birti útgáfudagatal.
- Á hlutabréfamarkaði fengu Alvotech og Bioventure markaðsleyfi fyrir AVT02 í Sádi-Arabíu.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Þú gætir einnig haft áhuga á

10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.

7. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra, en stór hluti hans var vegna færslna sem höfðu ekki í för með sér gjaldeyrisflæði og styrktist krónan því þrátt fyrir þetta og erlend staða þjóðarbúsins batnaði.

3. mars 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.

3. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,6% í 4,2% í febrúar, en við teljum að heldur muni draga úr lækkunartakti verðbólgu næstu mánuði. Hagvöxtur mældist 2,3% á fjórða ársfjórðungi 2024 og 0,6% fyrir árið í heild. Umsvif í hagkerfinu voru umfram spár, en Hagstofan færði upp hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Í vikunni fram undan eru nokkur uppgjör, Seðlabankinn birtir greiðslujöfnuð við útlönd og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.

28. feb. 2025
Hagvöxtur var 0,6% árið 2024. Krafturinn í hagkerfinu var lítillega umfram flestar spár sem gerðu heldur ráð fyrir lítils háttar samdrætti. Hagvöxturinn var ekki síst drifinn áfram af aukinni fjárfestingu, bæði í atvinnuvegum og íbúðauppbyggingu.

27. feb. 2025
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli mánaða í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,6% í 4,2%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði, þó það hægi á lækkunartaktinum, og mælist 3,8% í maí.

24. feb. 2025
Í vikunni birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs og þjóðhagsreikninga fyrir lokafjórðung síðasta árs. Í síðustu viku uppfærði Hafrannsóknarstofnun ráðleggingar um loðnuafla en samkvæmt því munu íslensk skip fá um 4,6 þúsund tonn. Í síðustu viku bárust einnig gögn um greiðslukortaveltu landsmanna í janúar sem var 6,5% meiri að raunvirði en árið áður. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5% á milli mánaða í janúar, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í febrúar 2024.

21. feb. 2025
Íbúðaverð hækkaði mun meira í janúar en síðustu mánuði. Íbúðaverð hefur verið nokkuð sveiflukennt og óútreiknanlegt undanfarið en stökkið í janúar skýrist af verðhækkun á sérbýli. Íbúðum á sölu hefur fjölgað hratt síðustu mánuði og birgðatími lengst. Grindavíkuráhrifin hafa fjarað út að langmestu leyti og hækkanir á verðtryggðum vöxtum kældu markaðinn undir lok síðasta árs.

19. feb. 2025
Um 122 þúsund ferðamenn komu til landsins í janúar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Ferðamenn voru 5,8% færri en á sama tíma í fyrra sem er á skjön við þróun síðustu mánaða, en allt frá því í júlí sl. hefur ferðamönnum fjölgað á milli ára. Þótt ferðamönnum hafi fækkað í janúar hélt kortavelta þeirra áfram að aukast.

18. feb. 2025
Enn eru merki um að landsmenn hafi svigrúm til neyslu þrátt fyrir langvarandi hávaxtastig. Kortavelta eykst með hverjum mánuðinum, utanlandsferðir í janúar hafa aldrei verið jafnmargar og í ár og samt virðast yfirdráttarlán ekki hafa færst í aukana. Á sama tíma hefur slaknað þó nokkuð á spennu á vinnumarkaði, eftirspurn eftir vinnuafli hefur dvínað og atvinnuleysi tók stökk í janúar þegar það fór yfir 4%.