Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um að verð­bólga hjaðni í 5,1% í októ­ber 

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,27% á milli mánaða í október og að verðbólga lækki úr 5,4% niður í 5,1%. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,2% í janúar á næsta ári.
Frosnir ávextir og grænmeti
10. október 2024

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,27% á milli mánaða nú í október og að ársverðbólga lækki úr 5,4% í 5,1%. Húsnæðisliðurinn hefur mest áhrif til hækkunar á milli mánaða, en þar sem við gerum ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hækki töluvert minna en fyrir ári mun það hafa áhrif til lækkunar á ársverðbólgu.

Matarkarfan hækkar á ný 

Matarkarfan lækkaði um 0,5% á milli mánaða í ágúst, í fyrsta sinn í þrjú ár og lækkaði svo aftur um 0,2% í september. Hér má ætla að áhrif aukinnar samkeppni á matvörumarkaði hafi haft áhrif. Verðathugun okkar fyrir októbermánuð bendir samt til þess að matarkarfan muni hækka lítillega nú, langmest vegna verðhækkana á kjöti. Við spáum því að matarkarfan hækki um 0,2% á milli mánaða. 

Reiknuð húsaleiga vegur þyngst í mánaðarhækkuninni en dregur niður ársverðbólgu 

Við spáum því að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar kostnaðinn af því að eiga húsnæði, hækki um 0,7% á milli mánaða (0,14% áhrif) í október. Frá því í júní, þegar Hagstofan tók upp nýja aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu, hafa mælingar verið stöðugri og mánaðarbreytingar verið á þrengra bili. Í október í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga um rúmlega 2%. Nú spáum við töluvert minni hækkun og að þar með dragi úr framlagi reiknaðrar húsaleigu til ársverðbólgu. 

Flugfargjöld til útlanda hækka en bensínverð lækkar 

Verð á flugfargjöldum til útlanda sveiflast verulega í samanburði við marga aðra liði vísitölunnar. Í októbermánuði eru þó yfirleitt ekki afgerandi mánaðarsveiflur og við spáum nú 1,9% hækkun á flugfargjöldum á milli mánaða. Gangi spáin eftir verður nokkurn veginn jafn dýrt að fljúga til útlanda í október í ár og í fyrra. Þá spáum við því að verð á bensíni og dísilolíu lækki um tæplega 0,1% á milli mánaða.

Spá um októbermælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 14,9% 0,2% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,3% 0,0% 0,00%
Föt og skór 3,8% 0,0% 0,00%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,7% 0,4% 0,04%
Reiknuð húsaleiga 19,9% 0,7% 0,14%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 5,7% 0,2% 0,01%
Heilsa 4,0% 0,0% 0,00%
Ferðir og flutningar (annað) 3,7% -0,5% -0,02%
- Kaup ökutækja 6,7% -0,1% -0,01%
- Bensín og díselolía 3,2% -0,1% 0,00%
- Flugfargjöld til útlanda 1,9% 1,9% 0,04%
Póstur og sími 1,6% 0,0% 0,00%
Tómstundir og menning 9,9% 0,2% 0,02%
Menntun 0,9% 0,0% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,2% 0,1% 0,01%
Aðrar vörur og þjónusta 6,6% 0,2% 0,01%
Alls 100,0%   0,27%

Spáum 4,2% verðbólgu í janúar á næsta ári 

Samkvæmt skammtímaspá okkar mun vísitala neysluverðs hækka um 0,27% í október, lækka um 0,12% í nóvember, hækka um 0,31% í desember og lækka aftur um 0,35% í janúar á næsta ári. Gangi spáin eftir verður verðbólga 4,5% í nóvember, 4,4% í desember og 4,2% í janúar á næsta ári. Spáin er nær óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í kjölfar þess að Hagstofan birti septembermælingu vísitölu neysluverðs.

Í janúar er áformað að taka upp kílómetragjald á allar tegundir bifreiða. Samhliða upptöku kílómetragjalds verða bensín og olíugjöld felld niður, en á móti verða kolefnagjöld hækkuð að einhverju marki. Þessar breytingar gætu því haft töluverð áhrif á verðbólgumælingar. Útfærsla á upptöku kílómetragjalds liggur ekki fyrir og því ekki ljóst hvort eða hvernig Hagstofan tekur tillit til þess í verðbólgumælingum. Ef kílómetragjald verður ekki tekið inn í verðmælingar á vísitölu neysluverðs má búast við að verðbólga í janúar verði allt að einu prósentustigi minni en við spáum hér.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Seðlabanki
17. nóv. 2025
Vikubyrjun 17. nóvember 2025
Skráð atvinnuleysi var 3,9% í október, 0,5 prósentustigum meira en í sama mánuði í fyrra. Brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 6,2% í október en utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um 3%. Peningastefnunefnd kemur saman á miðvikudaginn og við búumst við að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum.
Seðlabanki Íslands
14. nóv. 2025
Spáum óbreyttum vöxtum þrátt fyrir sviptingar í efnahagslífinu
Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í október og verðbólgumælingin bar þess merki að undirliggjandi verðþrýstingur hefði aukist. Í ljósi breytts lánaframboðs og óviðbúinna áfalla í útflutningsgeirunum má líkast til búast við mildari tón frá peningastefnunefnd.
13. nóv. 2025
Spáum 4,3% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að verðbólga standi óbreytt á milli mánaða og mælist 4,3% í nóvember. Flugfargjöld til útlanda verða til lækkunar á vísitölunni, en reiknuð húsaleiga og matarkarfan verða til hækkunar. Við búumst við aukinni verðbólgu á næstu mánuðum.
Hverasvæði
10. nóv. 2025
Raungengi enn í hæstu hæðum
Raungengi krónunnar er mjög hátt í sögulegu samhengi en hefur gefið lítillega eftir á allra síðustu dögum. Horfur í álútflutningi eru dræmar eftir bilun hjá Norðuráli og aflaheimildir gefa fyrirheit um samdrátt í útflutningi sjávarafurða. Ferðaþjónusta hefur vaxið umfram væntingar það sem af er ári og telja má horfur á vexti í nýjustu útflutningsstoðum Íslands. Velta samkvæmt VSK-skýrslum hefur þróast með svipuðum hætti í útflutningsgeiranum og í innlenda hagkerfinu, en ávöxtun hlutabréfa félaga í kauphöllinni með tekjur í erlendri mynt er mun lakari en fyrirtækja með tekjur í íslenskum krónum.
10. nóv. 2025
Vikubyrjun 10. nóvember 2025
Fáar áhugaverðar hagtölur voru birtar í síðustu viku, en í þessari viku birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir ferðamannatölur. Uppgjörstímabilið fyrir þriðja ársfjórðung er í fullum gangi.
Byggingakrani og fjölbýlishús
6. nóv. 2025
Óvissa á íbúðamarkaði og takmarkaðar raunverðshækkanir í kortunum 
Hátt vaxtastig og ströng lánþegaskilyrði hafa slegið verulega á verðhækkanir á íbúðamarkaði. Á sama tíma hefur fjöldinn allur af nýjum íbúðum risið og sölutími þeirra lengst til muna. Eftir að dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu féll hafa viðskiptabankarnir tekið lánaframboð til endurskoðunar og það sama má segja um suma lífeyrissjóðina. Seðlabankinn ákvað í síðustu viku að slaka lítillega á lánþegaskilyrðum.  
3. nóv. 2025
Mánaðamót 1. nóvember 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fataverslun
3. nóv. 2025
Vikubyrjun 3. nóvember 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar í október og mældist 4,3%. Svo mikil hefur verðbólga ekki verið síðan í febrúar síðastliðnum. Telja má áhyggjuefni að aukin verðbólga skýrist ekki af tilfallandi sveiflukenndum liðum heldur virðist undirliggjandi verðþrýstingur hafa aukist. Í þessari viku halda félög áfram að birta uppgjör og hugsanlega má búast við fleiri púslum í breytta mynd af framboði íbúðalána í kjölfar vaxtamálsins.  
Smiður
31. okt. 2025
Minnkandi spenna á vinnumarkaði og minni fólksfjölgun
Eftirspurn eftir vinnuafli hefur minnkað og dregið hefur úr hækkun launa. Atvinnuleysi hefur aukist smám saman og rólegri taktur í atvinnulífinu hefur endurspeglast í hægari fólksfjölgun. Kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt og við teljum að þótt hægi á launahækkunum komi kaupmáttur til með að aukast áfram á næstu árum. Mikill kraftur er í neyslu landsmanna, kortavelta eykst sífellt og Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir.
Paprika
30. okt. 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% á milli mánaða í október og verðbólga jókst úr 4,1% í 4,3%. Vísitala neysluverðs hækkaði meira en við bjuggumst við, ekki síst reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykk. Skammtímaspá okkar gerir nú ráð fyrir að verðbólga haldist í 4,3% út árið, en aukist svo í janúar og mælist 4,5%.