Vikan framundan
- Á mánudag birtir Seðlabankinn Efnahagsyfirlit annarra fjármálafyrirtækja og stöðu markaðsverðbréfa í lok júlí.
- Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs í ágúst á miðvikudag.
- Á miðvikudag birta Eik, Fjarskipti og HB Grandi uppgjör fyrir 2. ársfjórðung.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan gistinætur og gestakomur á hótelum í júlí, vísitölu framleiðsluverðs í júlí og vöruviðskipti á tímabilinu janúar-júlí.
- Á föstudag birtir Hagstofan bráðabirgðatölur fyrir vöru- og þjónustuviðskipti á 2. fjórðungi ársins, endurskoðaðar tölur fyrir þjónustuviðskipti á síðasta ári og verð- og magnvísitölur út- og innflutnings 2001-2017.
Mynd vikunnar
Á miðvikudag var vaxtaákvörðunarfundur í Seðlabankanum. Peningastefnunefnd hélt vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5%. Ákvörðunin var í samræmi við spár bankanna þriggja. Á sama tíma kom út ritið Peningamál 2017/3 sem inniheldur m.a. uppfærða verðbólgu- og hagvaxtarspá bankans.
Seðlabankinn hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir árið 2017 um rúmt eitt prósentustig. Skýrist það aðallega af minna framlagi utanríkisviðskipta þar sem horfur eru á hægari vexti í þjónustuútflutningi og hraðari vexti innflutnings. Bankinn hækkaði aftur spá sína um einkaneyslu og fjárfestingu fyrir þetta ár. Breytingar á spám um hagvöxt á næsta og þarnæsta ári voru lítilsháttar. Verðbólguhorfur eru að mestu svipaðar og í spánni frá því í maí, að mati bankans.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Hagstofan birti vísitölu byggingarkostnaðar sem var reiknuð um miðjan ágúst. Vísitalan hækkaði um 0,3% frá fyrri mánuði.
- Hagstofan birti líka launavísitölu í júlí sem var nær óbreytt m.v. mánuðinn á undan. Síðustu 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,2%.
- Atvinnuleysi mældist 1% í júlí samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 82,5%.
- Peningastefnunefnd SÍ hélt vöxtum bankans óbreyttum. Í Peningamálum lækkar bankinn spá sína um hagvöxt á þessu ári um rúmt eitt prósentustig.
- Þjóðskrá birti tölur um veltu á fasteignamarkaði. Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 11.-17. ágúst var 108. Heildarveltan nam 5.137 m.kr. og meðalupphæð á samning var 47,6 m. kr.
- Þjóðskrá birti líka talnaefni um viðskipti með atvinnuhúsnæði í júlí. Heildarfasteignamat seldra eigna var 5.810 m. kr.
- Orkuveita Reykjavíkur birti uppgjör fyrir fyrri helming ársins. Afkoma fyrirtækisins var jákvæð sem nam 7,3 mö. kr.