Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Eik birtir ársuppgjör.
Mynd vikunnar
Samkvæmt þjóðhagsreikningum sem Hagstofan birti fyrir helgi dróst útflutningur saman um 30,5% milli ára að raunvirði í fyrra. Þetta er svipað og við gerðum ráð fyrir í þjóðhagsspá okkar í október. Skýrist samdrátturinn af hruni í ferðaþjónustu vegna heimsfaraldurs Covid-19, en hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman úr 8,0% í 3,5% milli ára.
Þetta er langmesti samdráttur milli ára sem mælst hefur frá upphafi mælinga, eða frá árinu 1946. Það hefur einungis tvisvar gerst að útflutningur dragist saman um yfir 10% milli ára á þessu tímabili: 1949, þegar það þrengdi að mörkuðum fyrir íslenskar fiskafurðir við það að sjávarútvegur Evrópuþjóða var endurreistur eftir stríð og 1967, þegar síldarstofninn hrundi.
Það helsta frá síðustu viku
- Landsframleiðslan dróst saman um 6,6% milli ára á síðasta ári.
- Verðbólgan mældist 4,1% í febrúar.
- Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 17,5 ma.kr. á síðasta ári.
- Launavísitalan hækkaði um 3,7% milli mánaða í janúar.
- Miklar hækkanir hafa verið á hlutabréfamarkaði síðustu mánuði.
- Hagstofan birti niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn sinni, skammtímahagvísa í ferðaþjónustu, gistinætur í janúar og bráðabirgðatölur um vöruviðskipti við útlönd í janúar.
- Brim (fjárfestakynning), Eimskip, Festi, Iceland Seafood, Sýn og VÍS (fjárfestakynning) birtu ársuppgjör.
- RARIK birti ársreikning.
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla, Kvika banki stækkaði flokkinn KVB 19 01, Eik ákvað að greiða upp flokkinn EIF 15 1.