Mest áhrif til hækkunar milli mánaða höfðu flugfargjöld til útlanda, kostnaður við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga), og bensín og dísilolía. Mestu áhrif til lækkunar höfðu föt og skór (sumarútsölur) og matarkarfan. Vísitalan hækkaði nokkuð minna en við áttum von á, en við höfðum spáð 0,3% hækkun milli mánaða. Það sem kom okkur mest á óvart var að matarkarfan lækkaði milli mánaða, en við áttum von á hækkun.
Í tölum júlímánaðar sáum við framhald á þeirri þróun sem við höfum séð það sem af er ári, þ.e. að framlag innfluttra og innlendra vara til verðbólgu er að minnka, en framlag húsnæðis og þjónustu að aukast. Framan af skýrðist aukin verðbólga í faraldrinum nær eingöngu af auknu framlagi innfluttra vara vegna veikingar á gengi krónunnar. Nú er framlag húsnæðis og þjónustu fyrirferðameiri, og er júlí fyrsti mánuðurinn síðan heimsfaraldurinn skall á vorið 2020 sem framlag húsnæðis og þjónustu er hvort um sig hærra en framlag innfluttra vara.