Tekjur af erlendum ferðamönnum mun meiri nú en fyrir faraldur

Gögn Hagstofunnar benda til þess að neysla erlendra ferðamanna hér á landi, mælt í þeirra eigin heimamynt, hafi verið mun meiri á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili áður en faraldurinn hófst, þ.e. á fyrri árshelmingi ársins 2019. Þannig mældust útgjöld erlendra ferðamanna vegna ferðalaga hingað til lands 490 þúsund á hvern ferðamann á fyrsta ársfjórðungi og 417 þúsund á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar mældist neyslan 156 þúsund á fyrsta fjórðungi 2019 og 197 þúsund krónur á öðrum fjórðungi sama árs.
Á fyrsta fjórðungi þessa árs var neyslan því rúmlega þrefalt meiri en á sama fjórðungi 2019 og rúmlega tvöfalt meiri á öðrum ársfjórðungi. Á fyrri hluta ársins var meðalneyslan 140% meiri en árið 2019. Segja má að þessi þróun hafi hafist fljótlega eftir að faraldurinn hófst. Þannig var meðalneysla ferðamanna um 370 þúsund á fjórða fjórðungi á síðasta ári og jókst þá um 167% milli ára. Aukningin á þriðja fjórðungi síðasta árs var síðan 41%.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Tekjur af erlendum ferðamönnum mun meiri nú en fyrir faraldur









