Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Stór­auk­in út­gjöld til hern­að­ar- og varn­ar­mála um all­an heim

Útgjöld til hernaðar- og varnarmála hafa stóraukist á síðustu árum, einkum í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Leiðtogafundur NATO verður haldinn í Haag í lok mánaðarins og talið er að viðmið um útgjöld aðildarríkja til varnarmála verði hækkað til muna. Enn er óljóst upp að hvaða marki Ísland gæti þurft að auka varnartengd útgjöld. Aukin hernaðaruppbygging litar hagvaxtar- og verðbólguhorfur á heimsvísu og getur haft margþætt efnahags- og samfélagsleg áhrif.
Strönd
5. júní 2025

Umfjöllun þessi byggir að mestu á árlegri samantekt alþjóðafriðarstofnunarinnar SIPRI um hernaðarútgjöld og gagnasafni SIPRI.

Aukin spenna í alþjóðasamskiptum hefur hraðað hernaðaruppbyggingu um allan heim og útgjöld til hernaðar- og varnarmála jukust um 9,4% á heimsvísu á síðasta ári, að raunvirði. Útgjöldin hafa ekki  aukist jafnmikið á einu ári á því tímabili sem gögn alþjóðafriðarstofnunarinnar SIPRI ná yfir, aftur til ársins 1988.

Hröð hernaðaruppbygging á allra síðustu misserum

Að meðaltali nema hernaðarútgjöld nú um 2,5% af vergri landsframleiðslu í heiminum og hafa ekki verið jafn umfangsmikil miðað við höfðatölu frá árinu 1990. Hlutfallslega hefur sóknin verið mest í Evrópu á síðustu árum og hvert einasta Evrópuríki, að Möltu undanskilinni, varði meiri fjármunum til málaflokksins árið 2024 en árið áður.

Hernaðarútgjöld Úkraínu um 43% af hernaðarútgjöldum Rússlands

Stærstan hluta aukinna hernaðarútgjalda í heiminum má rekja til aukinnar hervæðingar í Evrópu í kjölfar þess að Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022. Rússar bættu verulega í hernaðaruppbyggingu á síðasta ári og vörðu 38% meiru til málaflokksins árið 2024 en árið áður. Útgjöldin nema um 7,1% af vergri landsframleiðslu þar í landi. Samkvæmt SIPRI er talið að útgjöld Rússa kunni að vera vanmetin og í nýjustu skýrslum er tekið fram að mun meiri leynd ríki yfir hernaðaruppbyggingu Rússa heldur en fyrir innrásarstríðið. Þá segir að stór hluti hernaðarútgjalda Rússa í fyrra hafi farið í vopnakaup og niðurgreiðslu til vopnaframleiðenda, en auk þess hafi kostnaður vegna stuðnings og greiðslna til hermanna farið langt út fyrir áætlaðan útgjaldaramma.

Úkraína hefur stóraukið vopnaframleiðslu og nútímavætt hernaðaruppbyggingu frá upphafi innrásarstríðsins. Strax árið 2022 voru útgjöld til málaflokksins rúmlega sexfölduð frá árinu áður og árið 2023 jukust þau um helming frá árinu 2022. Hernaðar- og varnartengd útgjöld í Úkraínu nema heilum 34% af vergri landsframleiðslu og hlutfallið er hvergi hærra. Um 54% af ríkisútgjöldum í Úkraínu fara í hernaðarmál og skatttekjum er alfarið varið í varnar- og hernaðarmál. Önnur ríkisútgjöld eru fjármögnuð með fjárframlögum erlendra ríkja.

Eftir gríðarhraða hervæðingu í Úkraínu hefur hægt á og í fyrra jukust hernaðarútgjöld þar í landi aðeins um tæp 3%. Þótt útgjöldin aukist ekki á sama hraða og áður nýtur Úkraína áfram stuðnings erlendra ríkja. Framleiðslugeta vopnaframleiðenda í Úkraínu hefur líka aukist verulega, ekki síst með samstarfi við evrópska og bandaríska vopnaframleiðendur. Í fyrra námu hernaðarútgjöld Úkraínu um 43% af hernaðarútgjöldum Rússa.

Breytt landslag kallar á aukna hernaðaruppbyggingu í Evrópu

Nær öll evrópsk ríki hafa bætt verulega í útgjöld til hernaðarmála frá upphafi innrásarstríðsins í Úkraínu. Þá ýtir óvissa um afstöðu Bandaríkjanna til varnarsamstarfs enn frekar undir áherslu á hernaðaruppbyggingu í Evrópu. Þyngsta útgjaldabyrði til hernaðarmála í Vestur- og Mið-Evrópu er í Póllandi, þar sem um 4,2% af vergri landsframleiðslu fer í hernaðarmál. Pólland, sem hefur landamæri að Úkraínu, hefur sótt hratt í sig veðrið síðustu misseri og hernaðarútgjöld jukust um heil 31% á síðasta ári.

Þjóðverjar verja um helmingi hærri fjárhæð til hernaðarmála en Pólverjar, enda mun stærra hagkerfi. Hlutfall hernaðarútgjalda af landsframleiðslu Þýskalands er 1,9%, helmingi lægra en í Póllandi. Þýskaland er númer fjögur á lista yfir þær þjóðir sem verja mestum fjármunum til hernaðarmála í heiminum. Útgjöld til málaflokksins voru 28% hærri í fyrra en árið áður og ný ríkisstjórn hefur boðað stórsókn í hernaðaruppbyggingu. Þá er Þýskaland næststærsti einstaki bakhjarl Úkraínu á eftir Bandaríkjunum.

Bretar hafa einnig sótt fram á sviði hernaðaruppbyggingar undanfarið og útgjöld til málaflokksins námu 2,3% af vergri landsframleiðslu í fyrra. Bresk stjórnvöld stefna á að komast upp í 2,5% fyrir árið 2027, auk þess sem verulega hefur verið bætt í stuðning við Úkraínu. Aukin fjárútlát til hernaðarmála í Bretlandi kalla á breytta forgangsröðun þar í landi og ríkisstjórnin hefur tilkynnt að í staðinn verði dregið úr þróunaraðstoð, úr 0,5% af vergri landsframleiðslu í 0,3%.

Bandaríkin langstærst í hernaðarútgjöldum

Ekkert ríki kemst með tærnar þar sem Bandaríkin hafa hælana þegar kemur að hernaðarútgjöldum. Nær þúsund milljörðum bandaríkjadollara var varið til hernaðarmála á síðasta ári, 37% af öllum hernaðarútgjöldum í heiminum og 66% af hernaðarútgjöldum aðildarríkja NATO. Á síðasta ári vörðu bandarísk yfirvöld 3,4% af vergri landsframleiðslu til hernaðar- og varnarmála og forgangsröðuðu í takt við varnarstefnu landsins: lögðu áherslu á varnir gegn Rússum til skamms tíma og varnir gegn Kínverjum til lengri tíma.

Vopnakapphlaup í Mið-Austurlöndum í kjölfar harðnandi stríðsátaka

Ekkert land í heiminum bætti hlutfallslega jafnmikið í hernaðarútgjöld á síðasta ári og Ísrael. Útgjöldin jukust um 65% og nema 8,8% af vergri landsframleiðslu, næstmesta byrði hernaðarútgjalda á eftir Úkraínu. Líbanon tók líka hratt við sér eftir átök við Ísrael á landamærunum í suðri og hernaðarútgjöld jukust um 58% í fyrra. Íran dró aftur á móti úr hernaðarútgjöldum í fyrra og líklega höfðu viðskiptahömlur Bandaríkjanna sitt að segja. Þær hafa haldið aftur af olíuútflutningi landsins og Íranar hafa glímt við þráláta verðbólgu.

Búist við að NATO-viðmiðið hækki til muna

Leiðtogafundur NATO verður haldinn í lok júní og búist er við að viðmið um útgjöld aðildarríkja til hernaðar- og varnarmála verði hækkað úr 2% af vergi landsframleiðslu í allt að 5%. Bandaríkjaforseti hefur þrýst á NATO-ríki og hvatt til stóraukinna fjárframlaga til varnarmála. Haft hefur verið eftir Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, að útfærslan gæti orðið á þann veg að miðað verði við 3,5% af vergri landsframleiðslu í bein framlög til hernaðarmála og 1,5% til viðbótar í uppbyggingu á varnartengdum innviðum sem á eftir að skilgreina nánar. Aðildarríkjum NATO hefur að meðaltali ekki tekist að uppfylla viðmiðið um að 2% af vergri landsframleiðslu skuli varið til varnarmála. Nýtt viðmið um 5% kallar því á verulega sókn í hernaðaruppbyggingu.

Kostnaðarsöm hernaðaruppbygging sem gæti aukið hagvöxt til skamms tíma

Ör hernaðaruppbygging síðustu ára hefur nú þegar sett mark sitt á ríkisrekstur hinna ýmsu Evrópuríkja. Pólland hefur til dæmis gefið út sérstök skuldabréf til að byggja upp varasjóð fyrir hernaðaruppbyggingu og Eistland hefur aukið hallarekstur verulega til að fjármagna hernaðaruppbyggingu. Hallarekstur í þágu hernaðarmála getur aukið verðbólgu og þrýst upp vaxtastigi. Breytt forgangsröðun getur komið illa við tekjulægri hópa eða jafnvel þróunarríki sem treysta á þróunaraðstoð, eins og frá Bretlandi. Að sama skapi er vandasamt og líklega óvinsælt að hækka skatta og gjöld til að fjármagna hernaðaruppbyggingu.

Hernaðaruppbygging fjölgar störfum og getur aukið hagvöxt til skamms tíma, sérstaklega í þeim löndum þar sem atvinnustig er lágt fyrir og efnahagslífið í lægð. Annars staðar gæti aukin áhersla á hernaðar- og varnarmál rutt úr vegi arðbærri fjárfestingu og veikt hagvaxtarhorfur til lengri tíma.

Óvíst hversu mikið Ísland vantar upp í 1,5%

Ísland er herlaust NATO-ríki og ver nær engum beinum fjármunum til hernaðar- og varnarmál. Til grundvallar stöðu Íslands í NATO liggur varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Þar er meðal annars kveðið á um afnot Bandaríkjanna á svæði við Keflavíkurflugvöll „til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til“.

Haft var eftir Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra, eftir fund með Mark Rutte í maí sl., að Ísland myndi horfa til þess 1,5% viðmiðs sem sneri að útgjöldum til að styðja við varnir ríkisins með fjölbreyttum hætti. 1,5% af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2024 nemur 69 milljörðum. Til að setja upphæðina í samhengi jafngildir hún árlegum fjárframlögum ríkisins til háskólamála, samkvæmt fjármálaáætlun 2026-2030. Mikilvægt er þó að hafa í huga að hluta af skuldbindingu um 1,5% hlýtur Ísland að uppfylla nú þegar og því er með öllu óvíst hversu mikið gæti þurft að bæta í.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Háþrýstiþvottur
14. júlí 2025
Vikubyrjun 14. júlí 2025
Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 10,1% á milli ára í júní, en það sem af er ári hafa þeir verið álíka margir og á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig á milli ára í júní, sem er svipuð aukning og hefur verið síðustu mánuði. Við birtum verðbólguspá í vikunni og teljum að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 4,0%. Í þessari viku birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
10. júlí 2025
Spáum 4% verðbólgu í júlí
Við spáum því að verðbólga minnki lítillega í júlí og mælist 4,0%. Eins og almennt í júlímánuði má búast við að sumarútsölur og breytingar á flugfargjöldum hafi mest áhrif á vísitölu neysluverðs. Við teljum ekki horfur á að verðbólga þokist nær verðbólgumarkmiði á árinu og spáum 4,2% verðbólgu í lok árs.
Fjölbýlishús
9. júlí 2025
Raunverð íbúða hefur þrefaldast frá aldamótum 
Íbúðaverð á Íslandi hefur hækkað langtum meira en laun og almennt verðlag frá aldamótum. Greiðslubyrði af meðalláni hélst tiltölulega stöðug til ársins 2021 þegar hún tók að hækka skarpt, sérstaklega greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum.   
Hús í Reykjavík
7. júlí 2025
Matur og húsnæði helstu drifkraftar verðbólgu
Hækkandi matvöruverð og húsnæðiskostnaður eru þeir þættir sem eiga stærstan þátt í því að viðhalda verðbólgu á Íslandi um þessar mundir. Verðbólga mældist 4,2% í júní, nokkuð umfram spár. Ef matvara og húsnæði væru ekki hluti af vísitölu neysluverðs hefði verðbólga verið undir markmiði Seðlabankans frá því í ágúst í fyrra. Þættir á borð við sterkari krónu og lækkandi olíuverð hafa líkast til haldið aftur af verðhækkunum á ýmsum vörum upp á síðkastið, en á móti hefur þjónustuverð hækkað.
Bakarí
7. júlí 2025
Vikubyrjun 7. júlí 2025
Hagstofa Íslands spáir 2,2% hagvexti á yfirstandandi ári, samkvæmt hagspá sem birt var á föstudaginn. Hagvaxtarhorfur hafa verið færðar upp frá marsspánni þegar gert var ráð fyrir 1,8% hagvexti á árinu. Hagstofan spáir lítillega auknu atvinnuleysi næstu misserin, en Vinnumálastofnun birtir atvinnuleysistölur fyrir júnímánuð síðar í þessari viku.
1. júlí 2025
Mánaðamót 1. júlí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flugvél á flugvelli
30. júní 2025
Vikubyrjun 30. júní 2025
Verðbólga jókst úr 3,8% og mældist 4,2% í júní. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum þrýstingi á innfluttum vörum en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu. Þá jókst velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum um 1,5% að raunvirði í mars og apríl.
Paprika
27. júní 2025
Verðbólga umfram væntingar
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðlag hækkaði umfram spár, en við höfðum spáð 3,9% verðbólgu. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum verðþrýstingi á innfluttum vörum, einkum fötum, skóm og tómstundarvörum, en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu.
Orlofshús á Íslandi
27. júní 2025
Viðskipti með sumarhús færast aftur í aukana
Sumarhúsum á Íslandi hefur fjölgað um 45% á síðustu 20 árum. Viðskipti með sumarhús færðust verulega í aukana á tímum faraldursins. Fyrst eftir faraldurinn hægðist um en nú virðist aftur hafa glaðnað yfir markaðnum.
Herðubreið
25. júní 2025
Áfram merki um viðnámsþrótt í hagkerfinu
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 1,5% að raunvirði í mars og apríl og um 5,2% í janúar og febrúar, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Veltugögnin bera þess merki að hagkerfið standi vaxtastigið vel af sér sem er í takt við aukinn hagvöxt í byrjun árs. Það sem af er ári hefur velta aukist mest í sölu og viðhaldi á bílum en einnig má greina aukin umsvif í helstu útflutningsgreinunum: álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.