Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um að verð­bólga standi í stað og verði 6,3% í ág­úst

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,36% á milli mánaða í ágúst og að verðbólga standi í stað í 6,3%. Alla jafna ganga sumarútsölur á fötum og skóm að hluta til baka í ágúst á meðan flugafargjöld til útlanda lækka. Við eigum von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði komin niður í 5,4% í nóvember.
Bananar í verslun
15. ágúst 2024

Verðbólgan var þó nokkuð umfram væntingar í júlí og hækkaði úr 5,8% í 6,3%. Það sem helst kom á óvart voru lakari sumarútsölur en í fyrra og meiri hækkun á matvörum.

Spáum 0,36% hækkun VNV í ágúst - ársverðbólga stendur í stað í 6,3%

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,36% á milli mánaða nú í ágúst og að ársverðbólga standi í stað í 6,3%. Húsnæðisliðurinn hefur mest áhrif til hækkunar, þar sem reiknuð húsaleiga skýrir helming hækkunarinnar, en einnig hefur hækkun á gjöldum vegna hitaveitu og raforku nokkur áhrif. Sumarútsölur byrja alla jafna að ganga til baka í ágúst sem hefur einnig áhrif til hækkunar, gangi spáin eftir. Flugfargjöld til útlanda lækka svo almennt í ágúst og sá liður hefur mest áhrif til lækkunar samkvæmt spá okkar.

Sumarútsölur lakari en í fyrra og matarkarfan hækkar

Verðlækkun á fötum og skóm var nokkuð undir okkar spá í júlí. Almennt hækkar þessi liður á milli mánaða, nema í janúar og júlí, þegar stóru útsölurnar standa yfir. Eitthvað hefur samt borið á tilboðum og útsölum utan þessara hefðbundnu útsölumánaða og mældist lækkun bæði í apríl og í júní. Sé horft á júní og júlí saman voru útsölurnar þó nokkuð dræmar í ár. Útsölurnar ganga yfirleitt til baka á tveimur mánuðum og nú í ágúst gerum við ráð fyrir 4% hækkun (+0,14% áhrif á VNV).

Matur og drykkjarvörur hækkuðu í verði um 1% í júlí, nokkuð meira en gert var ráð fyrir, þar sem ávextir, grænmeti og sætindi hækkuð nokkuð ríflega á milli mánaða. Við gerum nú ráð fyrir 0,4% hækkun á milli mánaða (+0,06% áhrif á VNV).

Ný aðferð skilar minni hækkun en sú gamla hefði gert

Í júní tók Hagstofan í gagnið nýja aðferð við útreikning á reiknaðri húsaleigu, aðferð svokallaðra húsaleiguígilda sem byggir á öllum gildandi samningum um húsaleigu í landinu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þann mánuð hækkaði liðurinn um 0,8% og í júlí um 0,5%. Fyrri aðferð Hagstofunnar byggði á vísitölu markaðsverðs húsnæðis ásamt áhrifum vaxtabreytinga. Í júní hækkaði vísitala markaðsverðs um 1,44% og í júlí hækkaði hún um 2,05%. Það er því ljóst að nýja aðferðin skilaði töluvert minni hækkunum en sú gamla hefði gert þessa tvo mánuði. Þó ber að hafa í huga að gamla aðferðin skilaði tiltölulega sveiflukenndum mælingum á milli mánaða, þar sem liðurinn jafnvel lækkaði. Nýja aðferðin kemur líklega til með að vera töluvert stöðugri en sú gamla.

Núna gerum við ráð fyrir um 0,6% (+0,11% áhrif) hækkun á reiknaðri húsaleigu á milli mánaða. Við byggjum þá spá meðal annars á breytingu á vísitölu neysluverðs síðustu mánaði, en algengt er að leigusamningar séu vísitölutengdir með „vísitölu neysluverðs til verðtryggingar“, sem er vísitala neysluverðs með tveggja mánaða töf. Töluvert minni hluti mánaðabreytinga skýrist svo af nýjum samningum sem koma inn í hverjum mánuði. Einhverjir samningar falla úr gildi og enn aðrir eru uppfærðir sem hefur auðvitað einnig áhrif á mælinguna. Þá eru alltaf ákveðið hlutfall samninga sem ekki breytast milli mánaða.

Flugfargjöld til útlanda lækka en bensínverð stendur í stað

Almennt má sjá nokkuð skýra árstíðarsveiflu á flugfargjöldum til útlanda. Þá eru flugfargjöld hæst í júlí, lækka með haustinu og hækka svo aftur fyrir jól og páska. Við spáum því að flugfargjöld lækki um tæp 10% á milli mánaða (-0,23% áhrif) nú í ágúst. Gangi spáin eftir munu flugfargjöld vera svipuð og í ágúst í fyrra.

Samkvæmt verðkönnun okkar var verð á bensíni og dísilolíu óbreytt á milli mánaða í ágúst.

Spá um ágústmælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,0% 0,4% 0,06%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,1% 0,00%
Föt og skór 3,5% 4,0% 0,14%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,5% 1,2% 0,11%
Reiknuð húsaleiga 19,5% 0,6% 0,11%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 5,5% 0,7% 0,04%
Heilsa 4,0% 0,3% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,3% 0,01%
- Kaup ökutækja 6,7% 0,2% 0,02%
- Bensín og díselolía 3,3% 0,0% 0,00%
- Flugfargjöld til útlanda 2,4% -9,7% -0,23%
Póstur og sími 1,6% -0,1% 0,00%
Tómstundir og menning 9,8% 0,0% 0,00%
Menntun 1,0% 1,0% 0,01%
Hótel og veitingastaðir 5,5% 0,6% 0,03%
Aðrar vörur og þjónusta 6,6% 0,6% 0,04%
Alls 100,0%   0,36%

Spáum meiri hjöðnun í október og nóvember

Samkvæmt skammtímaspá okkar mun vísitala neysluverðs hækka um 0,36% í ágúst, 0,29% í september, 0,22% í október og lækka svo um 0,01% í nóvember . Gangi spáin eftir stendur verðbólga í stað í ágúst, í 6,3%, og lækkar aðeins lítillega, í 6,2%, í september. Í október lækkar hún svo hraðar, eða í 5,8% og svo enn frekar í nóvember, í 5,4%. Í október og nóvember í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga töluvert mikið á milli mánaða og er viðbúið að verðbólga hjaðni hraðar þegar þeir mánuðir detta úr mælingunni.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Fólk við Geysi
19. ágúst 2025
Útflutningur í sókn en innflutningur líka
Vöruútflutningur frá Íslandi hefur aukist frá því í fyrra en samt hefur vöruskiptahalli aldrei verið meiri en nú. Þetta skýrist af stórauknum vöruinnflutningi, einkum á tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Ferðaþjónustan hefur skilað auknum tekjum í ár en á móti hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað og uppsafnaður kortaveltujöfnuður við útlönd var enn neikvæður í lok júlí.
Frosnir ávextir og grænmeti
18. ágúst 2025
Vikubyrjun 18. ágúst 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum á miðvikudag. Auk vaxtaákvörðunarinnar fáum við vísitölu íbúðaverðs í vikunni og nokkur uppgjör. Metfjöldi erlendra ferðamanna fór frá landinu í júlí, atvinnuleysi var óbreytt á milli mánaða og áfram var nokkur kraftur í greiðslukortaveltu heimila.
Seðlabanki Íslands
15. ágúst 2025
Ekki horfur á frekari vaxtalækkun á árinu
Við spáum því að peningastefnunefnd geri hlé á vaxtalækkunarferlinu og haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í apríl og verðbólguvæntingar hafa haldist tiltölulega stöðugar. Þá virðist hagkerfið þola vaxtastigið vel, kortavelta hefur aukist sífellt síðustu mánuði og enn er þó nokkur velta á íbúðamarkaði. Peningalegt taumhald losnaði með aukinni verðbólgu í apríl og við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd þyki tímabært að lækka raunstýrivexti enn frekar.
Flugvél á flugvelli
14. ágúst 2025
Spáum óbreyttri verðbólgu í ágúst
Við spáum því að verðbólga standi í stað í ágúst og mælist 4,0%. Eins og alla jafna í ágústmánuði má búast við að sumarútsölur gangi til baka að hluta. Einnig má gera ráð fyrir lækkandi flugfargjöldum. Næstu mánuði gerum við ráð fyrir að verðbólga aukist lítillega en hjaðni svo undir lok árs, og mælist 4,0% í desember.
Flugvöllur, Leifsstöð
13. ágúst 2025
Aukinn kaupmáttur, meiri neysla og fleiri utanlandsferðir
Neysla landsmanna virðist halda áfram að aukast og utanlandsferðir hafa verið þó nokkuð fleiri á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Launavísitalan hefur enda hækkað um 8,1% á síðustu tólf mánuðum og kaupmáttur haldið áfram að aukast. Atvinnuleysi hefur haldist nokkuð hóflegt. Það er þó lítillega meira en á sama tíma í fyrra og merki eru um að spenna á vinnumarkaði fari smám saman dvínandi.
11. ágúst 2025
Vikubyrjun 11. ágúst 2025
Í síðustu viku tóku gildi nýir tollar á innflutning til Bandaríkjanna. Nokkrar áhugaverðar hagtölur koma í þessari viku: brottfarir um Keflavíkurflugvöll, skráð atvinnuleysi, væntingakönnun markaðsaðila og greiðslumiðlun. Í vikunni fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs og uppgjörstímabil í Kauphöllinni heldur áfram með sex uppgjörum.
Epli
5. ágúst 2025
Vikubyrjun 5. ágúst 2025
Gistinóttum á landinu fjölgaði alls um 8,4% á milli ára í júní. Verðbólga á evrusvæðinu hélst óbreytt á milli mánaða og Seðlabanki Bandaríkjanna hélt stýrivöxtum óbreyttum.
1. ágúst 2025
Mánaðamót 1. ágúst 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Bananar
28. júlí 2025
Vikubyrjun 28. júlí 2025
Verðbólga hjaðnaði úr 4,2% í 4,0% í júlí. Við teljum ekki horfur á að verðbólga fari aftur niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands í ár, heldur haldist á bilinu 4,0% til 4,3% út árið.
25. júlí 2025
Minni verðbólga með bættri aðferð
Nú er liðið rúmt ár síðan Hagstofan tók upp nýja aðferð við að mæla reiknaða húsaleigu, sem er sá hluti vísitölu neysluverðs sem metur kostnað fólks við að búa í eigin húsnæði.