Spá­um að verð­bólga lækki í 9,8% í mars

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% milli mánaða í mars. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 10,2% í 9,8%. Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að verðbólga lækki, þótt það gerist hægt, og mælist enn yfir 8% þegar sumarið kemur.
Íslenskir peningaseðlar
16. mars 2023 - Hagfræðideild

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,39% milli mánaða í febrúar og jókst ársverðbólgan úr 9,9% í 10,2%. Þetta er mesta verðbólga sem mælst hefur í yfirstandandi verðbólgukúfi og hún hefur ekki mælst hærri síðan í september 2009. Við áttum von á lækkun verðbólgu úr 9,9% í 9,6% og kom þessi mæling okkur því mjög á óvart. Verðbólgan virðist vera orðin almennari og það sem helst vó til hækkunar í febrúar voru matvörur, föt og skór og húsgögn og heimilisbúnaður.

Vísitalan hækki um 0,61% milli mánaða og ársverðbólgan lækki í 9,8%

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,61% milli mánaða í mars. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólgan lækka úr 10,2% í 9,8%. Að þessu sinni eru það sex undirliðir sem munu hafa mest áhrif gangi spá okkar eftir: Matarkarfan, föt og skór, reiknuð húsaleiga, annað vegna húsnæðis, flugfargjöld til útlanda og liðurinn aðrar vörur og þjónusta. Verða þeir liðir allir til hækkunar.

Matarkarfan hækkar

Matarkarfan hækkaði nokkuð mikið í verði í febrúar, eða um 1,9% milli mánaða, sem var meira en við höfðum gert ráð fyrir. Verðhækkanirnar voru nokkuð almennar og hækkuðu 4 af 11 undirliðum um meira en 3,5%. Við eigum áfram von á að matarkarfan í heild hækki, þó ekki jafn mikið og síðast. Við spáum 0,8% hækkun milli mánaða núna í mars og að áhrif þess á vísitöluna verði 0,12 prósentustig til hækkunar.

Kostnaður við að búa í eigin húsnæði hækkar, þrátt fyrir lækkun húsnæðisverðs

Reiknaður kostnaður þess að búa í eigin húsnæði, þ.e. reiknuð húsaleiga, samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu, afskriftum ásamt framlagi vaxtabreytinga. Eftir miklar hækkanir undanfarið virðist loks vera að hægja á íbúðaverðsþróuninni. Þannig hefur húsnæðisverð, eins og Hagstofan mælir það, nú lækkað þrjá mánuði í röð. Við gerum ráð fyrir framhaldi á þessari þróun og að markaðsverð húsnæðis lækki um 0,25% milli mánaða núna í mars.

Framlag vaxtabreytinga fór lægst í 0,3 prósentustig til lækkunar vorið 2022. Síðan þá hefur það aukist samhliða hærri verðtryggðum íbúðalánavöxtum, en í útreikningum Hagstofunnar er eingöngu horft til verðtryggðra vaxta íbúðalána, sem hafa verið að mjakast upp á við samhliða hækkun stýrivaxta. Áhrif vaxta til hækkunar var 0,64 prósentustig í janúar og 0,58 prósentustig í febrúar. Næstu mánuði eigum við von á því að áhrif vaxta verði áfram til hækkunar á reiknaðri húsaleigu.

Núna í mars eigum við von á að áhrif vaxta verði 0,72 prósentustig til hækkunar. Alls gerum við því ráð fyrir að liðurinn reiknuð húsaleiga hækki um 0,47% milli mánaða og að áhrif þess á VNV verði 0,09 prósentustig til hækkunar. Við sjáum því að þó húsnæðisverð lækki, mælist húsnæðiskostnaður enn til hækkunar á verðbólgu vegna hærri vaxta. Heildaráhrifin eru þó orðin mun minni en áður.

Áhrif útsöluloka teygja sig inn í mars

Á tímum faraldursins voru bæði júlí- og janúarútsölurnar nokkuð slakar. Líkleg skýring var aukin verslun Íslendinga innanlands á meðan utanlandsferðir voru fátíðar. Útsölurnar í janúar síðastliðnum voru líkari þeim sem sáust fyrir faraldur en föt og skór lækkuðu um 8,4% og húsgögn og heimilisbúnaður um 5,5%. Í febrúar hækkuðu föt og skór aftur á móti meira við gerðum ráð fyrir sem bendir til þess að útsölur gætu hafa klárast snemma, en einnig að verð á nýjum vörum hafi komið hærra inn eftir útsölurnar. Við spáum áfram hækkun á fötum og skóm milli mánaða í mars, eða um 4,2%, þar sem við teljum einhver útsöluáhrif enn eiga eftir að ganga til baka.

Munurinn á útsölulokum á fötum og skóm annars vegar og húsgögnum og heimilisbúnaði hins vegar er að útsölurnar á fötum og skóm ganga yfirleitt ekki að fullu til baka fyrr en í mars, á meðan útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði virðast oft hafa klárast í janúar. Við gerum ráð fyrir að það sé tilfellið nú. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði um 8,7% í febrúar eftir að hafa lækkað um 5,5% í janúar. Við eigum því ekki von á mikilli breytingu á þeim lið nú í mars. Við spáum því að saman muni þessir liðir hafa áhrif til hækkunar um 0,17 prósentustig á VNV.

Flugfargjöld til útlanda hækka líklega

Verðkönnun okkar bendir til þess að verð á bensíni og díselolíu hækki lítið milli mánaða í mars, eða um 0,09%. Flugfargjöld til útlanda hafa mestu áhrifin á ferðaliðinn, gangi spá okkar eftir. Í síðasta mánuði hækkuðu flugfargjöld lítillega en við áttum von á lækkun. Nú gerum við ráð fyrir því að þau hækki um 2,76% og áhrif þess verði 0,05 prósentustig til hækkunar á VNV. Flugfargjöld hækka venjulega í apríl í kringum páska og við spáum hækkun í apríl um 14,37%. Þó er gott að hafa í huga að þessi liður sveiflast mjög mikið. Við spáum því að mæling á kaupum nýrra ökutækja sýni litla lækkun á milli mánaða í mars, eða -0,12%, sem hefur áhrif til lækkunar um 0,01 prósentustig.

Spá um marsmælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting Áhrif
Matur og drykkjarvara 15,40% 0,80% 0,12%
Áfengi og tóbak 2,50% -0,30% -0,01%
Föt og skór 3,30% 4,20% 0,14%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 10,30% 0,50% 0,05%
Reiknuð húsaleiga 19,70% 0,50% 0,09%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,50% 0,50% 0,03%
Heilsa 3,70% 0,90% 0,03%
Ferðir og flutningar (annað) 3,90% 0,30% 0,01%
Kaup ökutækja 6,20% -0,10% -0,01%
Bensín og díselolía 3,70% 0,10% 0,00%
Flugfargjöld til útlanda 1,70% 2,80% 0,05%
Póstur og sími 1,50% 0,00% 0,00%
Tómstundir og menning 9,20% 0,00% 0,00%
Menntun 0,70% 0,00% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 4,90% 0,50% 0,02%
Aðrar vörur og þjónusta 6,90% 1,10% 0,08%
Alls 100,0%   0,61%

Verðbólguhorfurnar aðeins verri, en eigum samt von á lækkun

Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir aðeins lægri verðbólgu en í uppfærðri spá okkar eftir síðustu birtingu VNV. Skýrist munurinn aðallega af því að þá gerðum við ráð fyrir að matvælaverð myndi hækka meira en við gerum nú. Við eigum von á að vísitalan hækki um 0,86% í apríl, 0,36% í maí og 0,75% í júní. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólgan lækka niður í 9,4% í apríl, 9,0% í maí og 8,3% í júní.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Gata í Reykjavík
20. mars 2023

Vikubyrjun 20. mars 2023

Tæplega helmingur þeirra heimila sem tóku fasteignalán frá byrjun árs 2020 er með heildargreiðslubyrði húsnæðislána undir 150 þúsund krónum á mánuði og rúmlega 75% eru með greiðslubyrði undir 200 þúsundum. Þrátt fyrir vaxtahækkanir eru um 55% þessara heimila annað hvort með minni greiðslubyrði en þegar þau tóku lánið upphaflega eða aukna greiðslubyrði að 10 þúsund krónum.
Seðlabanki Íslands
16. mars 2023

Spáum 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta í mars

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,75 prósentustig í næstu viku. Gangi spáin eftir fara meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, úr 6,5% upp í 7,25%.
Fólk við Geysi
13. mars 2023

Vikubyrjun 13. mars 2023

Mannfjöldi hér á landi var 388 þúsund 1. janúar 2023. Íbúum fjölgaði um 11.500 í fyrra, sem samsvarar 3,1% fólksfjölgun, sé horft til breytinga milli 1. janúar hvers árs. Landsmönnum hefur aldrei fjölgað jafnmikið og á síðasta ári.
6. mars 2023

Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf

Meðfylgjandi er nýjasta mánaðarlega yfirlit Hagfræðideildar um sértryggð skuldabréf.
Fimmþúsundkrónu seðlar
6. mars 2023

Vikubyrjun 6. mars 2023

Þótt verðbólgan sé svipuð nú og í júlí í fyrra hefur orðið sú breyting á að verðbólgan er almennari. Í júlí í fyrra höfðu 17% undirliða hækkað um meira en 10% yfir árið, en núna í febrúar var það hlutfall komið upp í 35%.
Frosnir ávextir og grænmeti
28. feb. 2023

Kröftugur hagvöxtur á síðasta ári, í samræmi við væntingar

Hagvöxtur mældist 6,4% árið 2022, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Hagvöxturinn var drifinn áfram af kröftugum vexti einkaneyslu og fjármunamyndunar. Útflutningur og innflutningur jukust verulega á milli ára, en heildaráhrif utanríkisverslunar á hagvöxt voru engin að þessu sinni. Tölurnar eru í takt við opinberar spár, en í nýjustu spá okkar frá því í október í fyrra gerðum við ráð fyrir 6,5% hagvexti.
Fataverslun
27. feb. 2023

Ársverðbólgan komin í tveggja stafa tölu

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,39% milli mánaða í febrúar og ársverðbólgan jókst úr 9,9% í 10,2%. Þetta er mesta verðbólga sem hefur mælst í yfirstandandi verðbólgukúfi, og tveggja stafa verðbólga hefur ekki mælst á Íslandi síðan í september 2009. Verðbólgan var mun meiri en við áttum von á, en við höfðum spáð 9,6% ársverðbólgu í febrúar.
Grafarholt
27. feb. 2023

Vikubyrjun 27. febrúar 2023

Íbúðamarkaður heldur áfram að kólna og íbúðaverð lækkaði milli mánaða í janúar, þriðja mánuðinn í röð. 280 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru gefnir út á höfuðborgarsvæðinu og hafa þeir ekki verið færri í janúar síðan 2011.
Ferðafólk
23. feb. 2023

Launavísitalan enn á fullri ferð

Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli desember 2022 og janúar 2023 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6%, sem er lækkun frá síðasta mánuði og nálgast mánuðina þar á undan.
Íbúðahús
22. feb. 2023

Íbúðaverð lækkar þriðja mánuðinn í röð

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% milli mánaða í janúar. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan lækkað um 1,4% sem er mesta lækkun á þriggja mánaða grunni síðan í ágúst 2010. Fáir kaupsamningar voru undirritaðir í janúar og augljóst að markaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er farinn að kólna töluvert.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur