Spáum 5,8% verðbólgu í febrúar

Árstíðarbundin hækkun á fötum og skóm annars vegar og húsgögnum og heimilisbúnaði hins vegar vegur hvað þyngst til hækkunar verðlags í febrúar. Þessir liðir lækka jafnan töluvert í janúar og hækka síðan aftur í febrúar. Að þessu sinni teljum við að samanlögð áhrif þessara tveggja liða til hækkunar verðlags verði 0,4% af samtals 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs.
Næststærsti áhrifaþátturinn á verðlagið í spánni er hækkun á dælueldsneyti en samkvæmt verðmælingu okkar hækkaði verð á bensíni og dísilolíu um 3,7% í febrúar. Áhrif þessa á hækkun verðlags eru 0,12%. Þessi hækkun fylgir eftir þeirri hækkun sem orðið hefur á heimsmarkaðsverði olíu.
Áhrif fasteignaverðs eru einnig töluverð eða 0,11%. Við gerum ráð fyrir að fasteignaverð hækki um 0,8% í febrúar sem yrði nokkuð minni hækkun en verið hefur á undanförnum mánuðum.
Lesa Hagsjána í heild









