Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um 4,5% verð­bólgu í nóv­em­ber

Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,13% á milli mánaða í nóvember og að verðbólga hjaðni úr 5,1% í 4,5%. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga koma til lækkunar að þessu sinni, en húsnæði án reiknaðrar húsaleigu til hækkunar. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar á næsta ári.
Epli
14. nóvember 2024

Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,13% á milli mánaða nú í nóvember og að ársverðbólga minnki úr 5,1% í 4,5%. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga koma til lækkunar að þessu sinni, en húsnæði án reiknaðrar húsaleigu til hækkunar. Flestir aðrir undirliðir munu hafa lítil áhrif. Spá okkar núna er 0,07 prósentustigum hærri en síðasta spá sem við birtum daginn sem Hagstofan birti októbermælinguna. Spá okkar um raforkuverð til almennings hækkar og eins spá okkar um undirliðinn „hótel og veitingastaðir“. Við lækkum spá okkar um reiknaða húsaleigu.

Reiknuð húsaleiga lækkar en annar húsnæðiskostnaður hækkar

Hagstofan reiknar kostnað við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) út frá markaðsleigu. Stór hluti leigusamninga eru vísitölutengdir og líklega tengdir við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, sem er vísitala neysluverðs með tveggja mánaða töf. Til verðtryggingar í nóvember er því septembermæling vísitölunnar, en í september lækkaði hún um 0,24% á milli mánaða. Við spáum því að reiknuð húsaleiga lækki um 0,1% á milli mánaða (-0,02% áhrif). Við spáum því einnig að annað vegna húsnæðis hækki um 0,8% á milli mánaða (0,08% áhrif) sem skýrist að mestu af hækkunum á raforkuverði til almennings sem hækkaði um 3,5% á milli mánaða samkvæmt verðmælingu okkar.

Óljóst hvernig tilboðsdagar í nóvember skila sér í verðmælingar Hagstofunnar

Síðustu ár hafa hérlendar verslanir tekið upp nokkra tilboðsdaga í nóvember. Þar á meðal er dagur einhleypra (e. singles’ day) sem er 11. nóvember. Í ár lenti dagur einhleypra inni í verðkönnunarvikunni, sem gerðist ekki síðustu tvö ár. Ólíkt janúar- og júlíútsölum er ekki komin reynsla á hvernig þessir tilboðsdagar skila sér inn í verðmælingar Hagstofunnar. Það er helst í liðunum föt og skór, húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. og tómstundir sem þessir tilboðsdagar gætu haft áhrif. Við teljum að áhrif þessara tilboðsdaga dugi ekki til þess að Hagstofan mæli lækkun í þessum liðum á milli mánaða , en gerum þó ráð fyrir minni hækkunum á þeim en ella.

Flugfargjöld til útlanda og bensín lækka

Verð á flugfargjöldum til útlanda sveiflast verulega í samanburði við marga aðra liði vísitölunnar. Sveiflurnar eru árstíðabundnar og flugfargjöld lækka nær alltaf á milli mánaða í nóvember. Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda lækki um 13,3% á milli mánaða (-0,26% áhrif). Þá lækkar verð á bensíni og dísilolíu um 1,2% á milli mánaða (0,04% áhrif) í verðkönnun okkar.

Spá um nóvembermælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,0% 0,20% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,4% -0,11% 0,00%
Föt og skór 3,8% 0,35% 0,01%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,8% 0,80% 0,08%
Reiknuð húsaleiga 19,8% -0,10% -0,02%
Húsgögn og heimilisbúnaður 5,6% 0,43% 0,02%
Heilsa 4,0% 0,23% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,02% 0,00%
- Kaup ökutækja 6,6% -0,10% -0,01%
- Bensín og díselolía 3,2% -1,20% -0,04%
- Flugfargjöld til útlanda 1,7% -13,30% -0,06%
Póstur og sími 1,6% -0,10% -0,00%
Tómstundir og menning 9,9% 0,04% 0,00%
Menntun 0,9% -0,04% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,2% 0,50% 0,03%
Aðrar vörur og þjónusta 6,6% 0,37% 0,02%
Alls 100,0%   -0,13%

Spáum 3,5% verðbólgu í febrúar á næsta ári

Samkvæmt skammtímaspá okkar mun vísitala neysluverðs hækka um 0,21% í desember, lækka um 0,41% í janúar á næsta ári og hækka aftur um 0,74% í febrúar. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,3% í desember, 4,1% í janúar og 3,5% í febrúar.

Ósamþykkt lög skapa enn óvissu

Þetta er allmikil hjöðnun á skömmum tíma og verður að teljast ákveðinn sigur í baráttunni við verðbólgu, gangi hún eftir. Að því sögðu er enn óljóst hvernig breytt gjaldtaka vegna notkunar ökutækja muni hafa áhrif á verðbólgumælingar. Hagstofan hefur nú gefið út að ef lög um kílómetragjald verði samþykkt verði gjaldið tekið með í verðmælingum fyrir vísitölu neysluverðs og kílómetragjaldið myndi því hafa áhrif á vísitöluna til hækkunar. Á sama tíma er gert ráð fyrir því í lögunum að bensín- og olíugjöld á eldsneyti verði felld niður, en að kolefnisgjald verði hækkað að einhverju leyti á móti. Miðað við forsendur fjármálaráðuneytisins ættu heimili ekki að finna mikið fyrir þessari breytingu og áhrifin á mælingar Hagstofunnar því að vera takmörkuð. Það verður þó að koma í ljós þegar og ef lögin verða samþykkt. Óvissan nú snýr einnig að því hverjar vogirnar inn í vísitölu neysluverðs verða á kílómetragjaldið, ekki aðeins á bensín- og díselbíla, heldur einnig á þau ökutæki sem hafa verið að borga þessi kílómetragjöld án þess að það hafi verið inn í vísitölunni áður.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Íbúðir
23. apríl 2025
Horfur á hófstilltum hækkunum á íbúðaverði
Við teljum horfur á tiltölulega hófstilltum verðhækkunum á íbúðamarkaði næstu árin, 5,9% hækkun á þessu ári, 4,8% hækkun á næsta ári og 6,4% hækkun árið 2027. Til samanburðar hefur íbúðaverð hækkað um 9% á ári að jafnaði frá aldamótum, og að meðaltali um 13% á ári frá árinu 2021. 
Greiðsla
22. apríl 2025
Vikubyrjun 22. apríl 2025
Leiguverð hefur hækkað um 11,3% á síðustu tólf mánuðum, þó nokkuð meira en íbúðaverð sem hefur hækkað um 8% á sama tímabili. Hækkanir á íbúða- og leigumarkaði eru þó nokkuð umfram almennar verðhækkanir í landinu, en verðbólga mældist 3,8% í mars. Áfram er kraftur í innlendri neyslu, greiðslukortavelta heimila hefur aukist statt og stöðugt síðustu mánuði og var 1,8% meiri í mars síðastliðnum en í mars í fyrra.  
Gönguleið
16. apríl 2025
Óljósar horfur í ferðaþjónustu vegna sviptinga í alþjóðasamskiptum
Sviptingar í alþjóðaviðskiptum gætu haft margvísleg áhrif á ferðaþjónustu hér á landi. Tollar gætu rýrt kaupmátt Bandaríkjamanna og haft áhrif á komur þeirra hingað til lands. Auk þess eru merki um að áhugi Evrópubúa á að heimsækja Bandaríkin fari dvínandi, sem gæti haft áhrif hingað heim, enda hafa Evrópubúar gjarnan komið við á Íslandi á leið sinni vestur um haf. Í nýrri hagspá gerum við ráð fyrir samdrætti í ferðaþjónustu á þessu ári, en að hún taki aftur við sér á næstu tveimur árum.
Mynt 100 kr.
14. apríl 2025
Vikubyrjun 14. apríl 2025
Í síðustu viku birtum við hagspá til næstu ára þar sem við spáum 1,4% hagvexti í ár og um 2% hagvexti næstu árin. Ferðamönnum fækkaði um 13,8% milli ára í mars. Skráð atvinnuleysi í mars var 0,4 prósentustigum hærra en í mars í fyrra. Þau tíðindi bárust einnig að skuldabréfaeigendur ÍL-sjóðs hefðu samþykkt að breyta skilmálum bréfanna sem heimilar útgefanda að gera upp bréfin. Í þessari viku birtir svo HMS vísitölu íbúðaverðs og leiguverðs.
Paprika
10. apríl 2025
Spáum 4% verðbólgu í apríl
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77% á milli mánaða í apríl og að verðbólga hækki úr 3,8% í 4,0%. Hækkunin á milli mánaða skýrist meðal annars af tímasetningu páskanna í ár.
9. apríl 2025
Hagspá til 2027: Ágætis horfur en allt getur breyst
Hagkerfið hefur kólnað eftir kröftugt vaxtarskeið fyrstu árin eftir Covid-faraldurinn og við teljum að nú fari það hægt af stað á ný.
Royal exchange
7. apríl 2025
Vikubyrjun 7. apríl 2025
Í síðustu viku kynnti Bandaríkjaforseti umfangsmikla tolla á allan innflutning til landsins, þ. á m. 10% tolla á vörur frá Íslandi, sem hafa þegar tekið gildi. Fundargerð peningastefnunefndar var birt og þar kemur fram að nefndin taldi svigrúm til 0,25 eða 0,50 prósentustiga vaxtalækkunar við síðustu vaxtaákvörðun. Samkvæmt nýrri ríkisfjármálaáætlun er markmið ríkisstjórnarinnar að tryggja hallalausan ríkisrekstur árið 2027.
1. apríl 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 1. apríl 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Hús í Reykjavík
31. mars 2025
Vikubyrjun 31. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,2% í 3,8% í mars. Lækkun á verðbólgu skýrist að langstærstum hluta af því að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en í sama mánuði í fyrra. Undirliggjandi verðbólga hjaðnaði líka sem sést á því að VNV án húsnæðis og allar kjarnavísitölur lækkuðu á milli mánaða. Fjármálastöðugleikanefnd telur fjármálakerfið standa traustum fótum en segir mikla óvissu í alþjóðamálum geta reynt á viðnámsþrótt þjóðarbúsins.
27. mars 2025
Verðbólga mælist undir 4%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,37% á milli mánaða í mars, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar úr 4,2% í 3,8% og er komin undir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, í fyrsta skipti frá því í lok árs 2020. Verðmælingin var nokkuð góð en við teljum að á næstunni hægi á hjöðnuninni.