Sam­drátt­ur á fyrsta árs­fjórð­ungi

Hagkerfið dróst saman um 4% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2021 sem landsframleiðsla dregst saman á milli ára. Samdrátturinn skýrist helst af minni birgðasöfnun vegna loðnubrests. Einkaneysla og fjárfesting jukust aftur á móti á fjórðungnum sem er til marks um eftirspurnarþrýsting.
Fiskiskip á Ísafirði
31. maí 2024

Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar mældist 4% samdráttur í landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar mældist 8,3% hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Síðan hefur hagvöxtur farið minnkandi með hverjum fjórðungnum og loks dróst landsframleiðsla saman, í fyrsta skipti frá því á fyrsta ársfjórðungi 2021.

Helstu undirliðir:

  • Einkaneysla jókst um 0,2% (0,1% til hækkunar á hagvexti)
  • Samneysla jókst um 1,2% (0,3% til hækkunar á hagvexti)
  • Fjármunamyndun jókst um 2,4% (0,5% til hækkunar á hagvexti)
  • Útflutningur dróst saman um 3,3% (1,3% til lækkunar á hagvexti)
  • Innflutningur jókst um 1,6% (0,7% til lækkunar á hagvexti)
  • Birgðabreytingar voru 35 ma.kr. minni en í fyrra (3,5% til lækkunar á hagvexti)

Samdráttur aðallega vegna minni birgðasöfnunar

Stærstan hluta samdráttarins má útskýra með birgðabreytingum í sjávarútvegi. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra jukust birgðir vegna mikillar loðnuvertíðar, alls um 38,5 ma.kr., en í ár jukust þær aðeins um 3,3 ma.kr. Alls má því skýra 3,5% af 4,0% samdrætti með minni aukningu í birgðum vegna loðnubrests.

Einkaneysla og fjárfesting aukast

Í ljósi þess hversu hátt vaxtastigið hefur verið síðustu misseri má telja athyglisvert að ekki hafi enn dregið áþreifanlega úr kraftinum í eftirspurn. Í takt við það er verðbólgan þrálát og hjaðnar hægt.

Einkaneysla stóð nokkurn veginn í stað á milli ára á fyrsta ársfjórðungi, jókst um aðeins 0,2%. Íslendingar virðast helst hafa haldið að sér höndum þegar kemur að kaupum á varanlegum neysluvörum eins og bílum, en frekar látið eftir sér utanlandsferðir. Allt árið í fyrra jókst einkaneysla um aðeins 0,5% að meðaltali og á fjórða fjórðungi dróst hún saman um 2,3%. Þróun einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi er nokkurn veginn í takt við gögn um kortaveltu landsmanna sem stóð meira og minna í stað á milli ára á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Aukin íbúðafjárfesting á skjön við íbúðatalningu

Fjármunamyndun jókst um 2,4% á milli ára á fyrsta fjórðungi og aukningin skýrist nær eingöngu af aukinni íbúðafjárfestingu. Íbúðafjárfesting jókst um 15,7% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi - svo mikið hefur hún ekki aukist frá því á þriðja ársfjórðungi ársins 2019. Hún jókst þó um 9,4% á síðasta fjórðungi í fyrra og eftir samfelldan samdrátt virðist því vera að færast aukinn þungi í íbúðafjárfestingu. Segja má að tölurnar séu á skjön við það sem ætla hefði mátt út frá talningu HMS á íbúðum í byggingu. Þeim virðist sífellt fækka og HMS hefur lýst áhyggjum af því að uppbygging íbúða verði langt undir þörf.

Eins og við bjuggumst við dregst fjárfesting hins opinbera saman og minnkar um 5,8% á milli ára og atvinnuvegafjárfesting jókst um aðeins 0,4%. Aukinn innflutningur á fjárfestingarvörum á fyrsta ársfjórðungi tengist því líklega aðallega aukinni íbúðafjárfestingu.

Minna flutt út af áli og sjávarafurðum

Framlag utanríkisviðskipta var neikvætt um 2 prósentustig á fyrsta fjórðungi ársins. Það skýrist bæði af minni útflutningi og meiri innflutningi en á sama tíma í fyrra. Vöruútflutningur dróst saman um tæplega eitt prósentustig frá fyrra ári, sem rekja má til minni útflutnings af sjávarafurðum, þar sem loðnubrestur vegur þungt. Þar að auki var minna flutt út af áli en á sama tíma í fyrra. Raforkuskerðingar á fyrri hluta ársins hafa eflaust haft sitt að segja, en einnig lækkun á heimsmarkaðsverði á áli á milli ára.

Vöruinnflutningur dróst einnig saman um tæplega 1% frá fyrra ári á föstu verðlagi. Þann samdrátt má að líkindum að mestu rekja til samdráttar í innflutningi á eldsneyti og flutningstækjum, en innflutningsverðmæti þeirra liða dróst saman á föstu gengi. Á móti vegur að innflutningsverðmæti fjárfestingarvara jókst um 5% á fjórðungnum, sem er í takt við aukna fjármunamyndun. Auk þess jókst innflutningsverðmæti neysluvara um rúmlega 1% á föstu gengi, í takt við örlítið aukna einkaneyslu á fjórðungnum.

Mögulega galli í gögnum um ferðaþjónustu

Þjónustuútflutningur dróst töluvert saman á fyrsta fjórðungi ársins, um 3,9% á föstu verðlagi. Síðustu ár hefur hlutur ferðaþjónustu í auknum þjónustuútflutningi verið mjög fyrirferðarmikill. Á fyrsta fjórðungi þessa árs er útlit fyrir að ferðaþjónusta hafi dregist saman frá fyrra ári en mælist engu að síður hlutfallslega stór. Ferðaþjónusta samanstendur af tveimur liðum, farþegaflutningum með flugi og ferðalögum. Farþegaflutningar aukast frá fyrra ári, sem gæti skýrst af aukinni hlutdeild tengifarþega í farþegafjölda. Ferðalagaliðurinn minnkar aftur á móti á milli ára sem má mögulega rekja til ákveðins galla í gögnum um kortaveltu erlendra korta hér á landi. Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa í auknum mæli nýtt sér erlenda færsluhirðingu og sú kortavelta sést ekki í gögnum sem Hagstofan styðst við. Hagstofan nefnir að sannprófun gagnanna sé í vinnslu, en tekur þó fram að gallinn muni ekki hafa mikil áhrif á heildarniðustöðuna.

Þjónustuinnflutningur jókst töluvert á fjórðungnum á föstu verðlagi, eða um 6,6% frá fyrra ári. Þessa aukningu í þjónustuinnflutningi má að stórum hluta rekja til mikillar aukningar í innfluttri fjármálaþjónustu, en undir fjármálaþjónustu fellur til dæmis færsluhirðing kortafyrirtækja. Síðustu ár hefur innflutt viðskiptaþjónusta aukist töluvert og eykst áfram á fyrsta fjórðungi þessa árs. Undir viðskiptaþjónustu fellur til dæmis rannsókna- og þróunarþjónusta og önnur sérfræðiþjónusta. Til innfluttrar þjónustu teljast einnig ferðalög Íslendinga til útlanda sem færðust lítillega í aukana á fjórðungnum.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Paprika
24. júní 2024
Vikubyrjun 24. júní 2024
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% í maí og vísitala leiguverðs um 3,2% samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Englandsbanki hélt vöxtum óbreyttum á meðan svissneski seðlabankinn lækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Eftirtektarverðasta innlenda hagtalan sem birtist í þessari viku er eflaust vísitala neysluverðs sem Hagstofan birtir á fimmtudaginn.
Fjölbýlishús
19. júní 2024
Vísitala íbúðaverðs á hraðri uppleið
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í maí. Nafnverð íbúða er 8,4% hærra en á sama tíma í fyrra og raunverð íbúða er 4% hærra. Undirritaðir kaupsamningar um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu voru 150% fleiri í maí á þessu ári en í maí í fyrra.  
Krani með stiga
18. júní 2024
Vikubyrjun 18. júní 2024
Í síðustu viku fengum við tölur um atvinnuleysi, fjölda ferðamanna og greiðslukortaveltu hér á landi í maí. Seðlabanki Bandaríkjanna hélt vöxtum óbreyttum. Síðar í dag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs.
Strönd
14. júní 2024
Óvæntur kraftur í kortaveltu í maí
Kortavelta íslenskra heimila jókst á milli ára í maí, bæði innanlands og erlendis. Síðustu mánuði hefur kortavelta nær alltaf dregist saman á milli ára en eykst nú meira en hún hefur gert frá því í janúar 2023. Þessi aukna kortavelta vekur athygli í þrálátu hávaxtastigi og samdrætti í hagkerfinu á fyrsta ársfjórðungi.
Frosnir ávextir og grænmeti
13. júní 2024
Spáum rétt tæplega 6% verðbólgu í sumar
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,47% á milli mánaða í júní og að verðbólga lækki í 5,8%. Samkvæmt spánni verða hækkanirnar nokkuð almennar, líkt og í síðasta mánuði. Við spáum nokkuð óbreyttri verðbólgu næstu mánuði.
Ferðafólk
11. júní 2024
Fleiri ferðamenn en minni verðmæti
Á fyrstu fimm mánuðum ársins komu 3,9% fleiri erlendir ferðamenn til Íslands en á sama tíma í fyrra. Á móti hefur skráðum gistinóttum fækkað um hálft prósent á fyrstu fjórum mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra og að sama skapi hefur kortavelta erlendra ferðamanna á föstu gengi dregist saman um tæplega 2% á milli ára.
Seðlabanki Íslands
10. júní 2024
Vikubyrjun 10. júní 2024
Evrópski seðlabankinn lækkaði vexti í síðustu viku. Vinnumarkaðstölur frá Bandaríkjunum voru sterkari en almennt var búist við sem eykur líkurnar á að vaxtalækkunarferli seðlabankans þar í landi seinki.
6. júní 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - maí 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Flutningaskip
5. júní 2024
Aukinn halli á viðskiptum við útlönd
Alls var 41 ma. kr. halli á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi. Hallinn jókst nokkuð milli ára. Þrátt fyrir þetta batnaði erlend staða þjóðarbúsins á fjórðungnum.
4. júní 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 4. júní 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur