Opinber fjárfesting síðustu ára – átak eða í meðallagi?
Í heild er áætlað að fjármunamyndun alls hafi aukist um 13,3% að raungildi á fyrstu þremur ársfjórðungum 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Þar af jókst fjárfesting atvinnuvega um 24,4% og fjármunamyndun hins opinbera um 9,9%.
Meðalhlutfall opinberrar fjárfestingar af VLF á árunum 1998-2020 var 3,9%. Tölur Hagstofunnar, sem yfirleitt eru notaðar í þessu samband, ná aftur til 1995. Meðalhlutfall opinberrar fjárfestingar af VLF á tímabilinu 1995-2020 var aftur á móti 4,2% eða ívið hærra en valið tímabil í samanburðinum. Meðalhlutfallið á árunum 2017-2020 var svo 3,6% og það var 3,3% á árunum 2015-2020.
Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar sem fjárlagafrumvarp næsta árs byggir á er reiknað með að opinber fjárfesting aukist um 19,8% í ár (úr 3,7% af VLF í 4,1%) og minnki svo um 1-6% á næstu þremur árum. Það felur í sér að hlutfall fjárfestingar af VLF verði 4,1% í ár, 4% á næsta ári, 3,8% 2023 og 3,5% 2024. Að meðaltali gefur þetta fjárfestingu upp á 3,8% af VLF á tímabilinu 2020-2024. Hvort að átak sé réttnefni yfir þessa þróun sé miðað við langtímameðaltöl er áhugaverð spurning.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru fjárfestingar ríkissjóðs tæpir 67 ma.kr. í fyrra, eða 2,3% af VLF. Meðalhlutfall fjárfestinga ríkissjóðs af VLF var 2,3% á árunum 1998-2020. Gert er ráð fyrir að fjárfestingarframlög hjá ríkissjóði í ár verði um 69 ma.kr. og í fjárlagafrumvarpi ársins 2022 er gert ráð fyrir rúmlega 71 ma.kr. Þetta þýðir að hlutfall fjárfestinga ríkissjóðs af VLF verður um 2,3% öll þessi ár. Það er því tæplega hægt að tala um mikið átak sé vísað til sögulegs meðaltals í þessu sambandi, en auðvitað eru fjárfestingarnar meiri en var á árunum eftir 2012.
Á undanförnum árum hefur verið mikið rætt um að styrkja þurfi ýmsa innviði samfélagsins, þar á meðal samgöngu- og raforkukerfið sem þarfnast augljóslega mikils viðhalds. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2022 kemur fram að fjárfestingarframlag til samgönguframkvæmda falli nú niður í kjölfar þess að átakinu lýkur á árinu 2021, en það hefur verið fjármagnað með umframarðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum. Þá kemur einnig fram í frumvarpinu að 2,6 ma.kr. framlag vegna breikkunar einbreiðra brúa falli niður.
Fjárfestingarátaki hins opinbera var ætlað að koma inn á meðan fjárfestingar atvinnuveganna væru í lægð vegna kreppueinkenna í hagkerfinu, bæði 2019 í kjölfar gjaldþrots WOW air og svo vegna Covid-19 faraldursins.
Sé litið á breytingar á fjárfestingum atvinnuveganna annars vegar og hins opinbera hins vegar sést greinilega að opinbert fjárfestingarátak náði aldrei að koma í stað fjárfestingar atvinnuveganna þegar hún fór minnkandi. Breytingar á fjárfestingum atvinnuveganna og fjárfestingum hins opinbera hafa fylgst nokkuð vel að frá árinu 2019. Og nú þegar farið er að birta yfir efnahagslífinu aukast opinberar fjárfestingar hins opinbera á sama tíma og í atvinnulífinu.
Lesa hagsjána í heild
Hagsjá: Opinber fjárfesting síðustu ára – átak eða í meðallagi?