Opinber fjárfesting lítil þessi misserin þrátt fyrir yfirlýsingar um annað
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands dróst opinber fjárfesting saman um 9,3% á árinu 2020. Þetta er annað árið í röð sem opinber fjárfesting minnkar, en samdrátturinn var 10,8% á árinu 2019. Opinber fjárfesting var einungis 3,5% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en hún hefur að meðaltal verið um 3,9% af VLF frá árinu 2001.
Þessi niðurstaða skýtur verulega skökku við sé litið til samþykkta um aukin útgjöld til fjárfestinga í bæði fjárlögum og fjáraukalögum og yfirlýsingar ráðamanna allt frá upphafi ársins 2019 um að ríkissjóður myndi nú taka öflugan þátt í fjárfestingum á sama tíma og fjárfesting atvinnuveganna hefði dregist mikið saman.
Á milli 2001 og 2010 var opinber fjárfesting að jafnaði vel yfir 4% af VLF. Hlutfallið var síðan töluvert lægra fram til 2018 þegar það hækkaði töluvert, m.a. vegna yfirtöku ríkissjóðs á Hvalfjarðargöngunum, en hefur síðan lækkað tvö síðustu ár á sama tíma og einnig hefur dregið úr fjárfestingum í atvinnulífinu.
Opinber fjárfesting hefur nú farið minnkandi miðað við fyrra ár í sex ársfjórðunga samfellt þannig að það er ljóst að áform stjórnvalda um stórfelld fjárfestingarátök hafa ekki gengið eftir.
Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði á Íslandi eru megin niðurstöðurnar þær að stóraukin fjárfesting í innviðum sé nauðsynleg hér á landi og að einmitt nú séu góðar aðstæður í efnahagslífinu til að auka opinbera fjárfestingu stórlega.
Skýrsluhöfundar leggja til að nýta beri þá óvirku framleiðsluþætti sem þegar eru til staðar og byrja að vinna á mikilli uppsafnaðri viðhaldsþörf sem hefur orðið til á síðustu árum. Þetta er einmitt sami málflutningur og hófst meðal ráðamanna strax í upphafi ársins 2019 þegar bera fór á samdrætti í efnahagslífinu. Viljann hefur ekki vantað, en framkvæmdirnar láta bíða á eftir sér.
Samkvæmt skýrslu SI er uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi umtalsverð. Þörfin er áætluð um 420 ma.kr. eða 14,2% af landsframleiðslu ársins 2020. Þessi upphæð nemur rúmlega fjórfaldri opinberri fjárfestingu ársins 2020.
Umfang opinberrar fjárfestingar síðustu missera hefur augljóslega ekki dregið mikið úr þeirri uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem varð til í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum. Með fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum er augljóslega verið að fjárfesta í hagvexti framtíðarinnar. Af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið lagt fram það mat að þróuð ríki eins og Ísland gætu aukið hagvöxt um 2,7 prósentustig og fjölgað störfum um 1,2% á næstu tveimur árum með því að auka fjárfestingu um 1% af vergri landsframleiðslu. Þörfin fyrir aukna opinbera fjárfestingu er því brýn.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Opinber fjárfesting lítil þessi misserin þrátt fyrir yfirlýsingar um annað