Nýskráningar og hóflegri markaður
Íslenski markaðurinn lækkaði um 2,1% í júní samkvæmt heildarvísitölu OMX en vísitalan hafði lækkað um tæp 10% í maí. Hlutabréfamarkaðir allra helstu viðskiptalanda Íslands lækkuðu í júní, nema sá kínverski, en um er að ræða mestu hækkun hlutabréfa þar í tæp tvö ár. Fjárfestar áætla að efnahagsáfall sífelldra lokanna vegna faraldursins sé afstaðið en nýverið var sóttkví ferðamanna til Kína stytt úr tveimur vikum í eina. Auk þess hefur hlutabréfaverð kínverskra tæknifyrirtækja hækkað nokkuð skarpt vegna bjartsýni á að aðgerðum stjórnvalda, til að takmarka vald tæknirisanna, fari að linna.
Lækkunin á íslenska markaðnum var talsvert minni en á öðrum mörkuðum sem lækkuðu meira. Hvað Norðurlöndin varðar lækkaði sænski markaðurinn mest, eða um 11,8%, þar á eftir kemur norski sem lækkar um tæp 9%, sá finnski um 7,5% og danski um 5,2%. Mesta lækkun meðal helstu viðskiptalanda Íslands var í Þýskalandi en markaðurinn þar lækkaði um 14,5% í júní.