Neysla nú svipuð því sem var fyrir Covid-faraldurinn
Seðlabanki Íslands birti fyrir helgi gögn um veltu innlendra greiðslukorta í maí. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 81 mö.kr. og jókst um 9% milli ára miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 11 mö.kr. og jókst um 66% milli ára miðað við fast gengi. Samanlagt jókst kortavelta um 14% milli ára í maí miðað við fast gengi og fast verðlag sem er svipuð þróun og hefur sést á síðustu mánuðum, þ.e. talsvert mikil aukning þar sem verið er að miða 12 mánaða breytingu við tímabil þar sem fyrsta bylgja faraldursins reið yfir með mikilli óvissu og takmörkum á neyslu og daglegu lífi fólks.
Við sjáum nokkuð áberandi viðsnúning eiga sér stað nú, þar sem samdráttur vormánaða í fyrra verður að nánast jafn miklum vexti. Neyslustigið nú er því nokkuð svipað því sem var áður en faraldurinn braust út. Í maí 2019 nam kortavelta Íslendinga alls 90,5 mö.kr. á verðlagi og gengi maímánaðar í ár, samanborið við 92 ma.kr. nú og mælist því um 2% meiri nú en fyrir tveimur árum.
Munurinn er hins vegar sá að neyslan fer nú í auknum mæli fram innanlands. Fyrir tveimur árum fór um 20% af neyslunni fram erlendis en nú er hlutfallið um 12%. Þó neysla Íslendinga erlendis hafi aukist um 66% milli ára í maí, er hún enn tæplega 40% minni en hún var í maí 2019. Þetta skýrist af því að ferðalög eru enn talsvert undir því sem eðlilegt getur talist í maímánuði.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Neysla nú svipuð því sem var fyrir Covid-faraldurinn