Neysla landsmanna í febrúar nokkuð mikil innanlands
Seðlabanki Íslands birti í síðustu viku gögn um veltu innlendra greiðslukorta í febrúar. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 63,4 mö.kr. og jókst um 5,6% milli ára miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga erlendis nam alls 8,2 mö.kr. og dróst saman um 45% milli ára miðað við fast gengi. Samanlagt dróst kortavelta saman um 4% milli ára í febrúar miðað við fast gengi og fast verðlag.
Þetta er talsvert minni samdráttur en mældist í janúar þegar neyslan dróst saman um 8% milli ára. Munurinn skýrist af kraftmeiri neyslu innanlands sem má að líkindum rekja til fárra smita og tilslökunum á sóttvarnaraðgerðum. Skemmtistaðir og krár fengu að opna dyr sínar á ný í byrjun mánaðarins og kortavelta jókst á veitingastöðum. Íslendingar voru einnig duglegir að ferðast og nýta sér gistiþjónustu á hótelum og er það sjáanlegt á kortaveltunni.
Sem fyrr var neysla Íslendinga í febrúar þó mest í stórmörkuðum og dagvöruverslunum. Íslendingar eyddu ríflega 16 mö.kr. þar, sem er 11% meira en í febrúarmánuði í fyrra miðað við fast matar- og drykkjaverð. Að jafnaði hefur mánaðarleg kortavelta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum mælst um 15% meiri en sama mánuð árið áður frá því að faraldurinn hófst.