Mikill áhugi virðist vera á sumarhúsakaupum samkvæmt gögnum Þjóðskrár um mánaðarlegan fjölda kaupsamninga um sumarhús og lóðir undir sumarhús. Skarpur viðsnúningur varð um leið og Covid-faraldurinn braust út þar sem viðskipti fóru úr því að vera um 17 talsins á mánuði á fyrsta fjórðungi síðast árs upp í að jafnaði 52 á mánuði á öðrum ársfjórðungi. Slík aukning hefur ekki mælst á jafn skömmum tíma frá upphafi gagnasöfnunar.
Mesti fjöldi sem hefur mælst í stökum mánuði var í júní í fyrra þegar 73 kaupsamningar voru undirritaðir. Nýjustu gögn eiga við um aprílmánuð í ár en þá voru 62 samningar undirritaðir samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár og virðist áhuginn því enn vera mikill.
Það er greinilegt að færri ferðalög til útlanda og aukinn tími fólks heima við á meðan faraldurinn hefur geisað hefur aukið verulega áhuga fólks á að fjárfesta í sumarhúsi innanlands. Á fyrsta fjórðungi þessa árs hafa samanlagt 129 kaupsamningar verið undirritaðir sem eru 153% fleiri en á sama tíma í fyrra.