Metfjöldi kaupsamninga um sumarhús og lóðir voru undirritaðir í fyrra samkvæmt gögnum Þjóðskrár. Alls voru þeir 603 talsins og hefur fjöldinn nærri því tvöfaldast frá því sem var árið 2019 þegar ríflega 300 kaupsamningar voru undirritaðir. Lægri vextir, aukinn sparnaður og færri ferðalög til útlanda síðustu tvö árin hafa eflaust ýtt undir áhuga margra á að fjárfesta í sumarhúsi.
Mikið hefur verið rætt um áhrif lægri vaxta og faraldursins á kauphegðun fólks á íbúðamarkaði, en áhrifin á markað fyrir sumarhús eru ef til vill hlutfallslega sterkari. Aukningin í fjölda seldra sumarhúsa mældist 58% milli áranna 2019 og 2020 og 21% milli 2020 og 2021. Á sama tíma var aukningin í fjöldi seldra íbúða 17% milli áranna 2019 og 2020 og 10% milli 2020 og 2021.
Í fyrra voru um 14.000 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði undirritaðir, sem er vissulega mikið, og mikil aukning frá því sem var fyrir faraldur þegar fjöldinn var á bilinu 10-11.000, en þetta er þó svipaður fjöldi og hefur sést áður. Árið 2007 voru ríflega 13.000 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði undirritaðir en þá voru hins vegar ekki nema 284 sumarhús og lóðir sem seldust sem er tæplega helmingur þess sem seldist í fyrra. Það má því vera að uppsveiflan sem nú ríkir á íbúðamarkaði hafi smitast yfir á markað fyrir sumarhús í meira mæli en gerðist í síðustu uppsveiflu á íbúðamarkaði.