Aðflutningur hingað til lands jókst talsvert í fyrra þrátt fyrir heimsfaraldur og takmarkaða atvinnumöguleika. Alls fluttu 4.620 fleiri til landsins en frá því, sem er mikil breyting frá því sem sást á árinu 2020 þegar aðfluttir umfram brottflutta voru 2.075 talsins sem var minnsti fjöldi síðan 2015. Aðflutningur vinnuafls hingað til lands er mikilvæg ef ekki nauðsynleg forsenda þess að atvinnulífið nái að blómstra, en býr einnig til áskoranir.
Áskoranirnar snúa fyrst og fremst að húsnæðismarkaðinum þar sem nægt húsnæði þarf að vera til staðar fyrir þá sem hingað koma. Óvíst er hvort þeir sem flytja hingað til skemmri tíma hyggjast kaupa fasteign, líklegra þykir að þrýstingur muni aukast á leigumarkaði haldi þessi þróun áfram.
Á allra síðustu árum hefur nettó aðflutningur hingað til lands verið á bilinu 4-8.000 einstaklingar á sama tíma og náttúruleg fjölgun hefur verið um 2.000 einstaklingar. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur kallað á aukið vinnuafl sem kemur að miklu leyti erlendis frá. Mannfjöldaaukning hér á landi er því fyrst og fremst drifin áfram af aðflutningi erlendra ríkisborgara.