Launavísitalan hækkaði um 8,3% á milli meðaltala áranna 2020 og 2021. Þetta er mun meiri hækkun en á næstu árum þar á undan og hefur vísitalan ekki hækkað meira frá því á árinu 2016, en þá hækkaði vísitalan mest á þessari öld. Meðalhækkun vísitölunnar frá aldamótum er 6,9% og meðalhækkun frá árinu 2011 er 7,0%. Hækkunin á árinu 2021 er því mikil í sögulegu samhengi.
Kaupmáttur launa jókst um 3,7% milli áranna 2020 og 2021 sem er meira en næstu tvö ár þar á undan. Verðbólga var mikil á árinu þannig að tiltölulega miklar launahækkanir skiluðu síðri kaupmætti en ella hefði orðið.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli októbermánaða 2020 og 2021 sést að laun á almenna markaðnum hækkuðu áfram mun minna en á þeim opinbera. Launin hækkuðu um 6,5% á almenna markaðnum á þessum tíma og um 10,4% á þeim opinbera, þar af 9,5% hjá ríkinu og 11,7% hjá sveitarfélögunum. Opinberi markaðurinn var því leiðandi í launabreytingum á tímabilinu.
Samkvæmt kjarasamningum gætu laun hækkað á nær öllum vinnumarkaðnum þann 1. maí vegna ákvæða um hagvaxtarauka. Þar er um að ræða viðmiðun launa við aukningu hagvaxtar á mann á árinu 2021, sem byggja á fyrstu niðurstöðum Hagstofu Íslands um þjóðhagsreikninga ársins 2021 sem munu birtast í lok febrúar.
Töluverð umræða var um hagvaxtaraukann á síðasta ári og sýndist sitt hverjum um þessa tengingu við hagvöxt í því sveiflukennda ástandi sem hefur ríkt síðustu misseri. Miðað við þær tölur sem komið hafa fram um hagvöxt á árinu 2021 má fastlega reikna með því að virkja megi ákvæði samninga um hagvaxtarauka sem myndi hækka laun þann 1. maí 2022.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Launavísitalan hefur ekki hækkað meira milli ára síðan árið 2016