Eftir að hafa veikst dagana eftir innrás Rússlands í Úkraínu í lok febrúar hóf krónan að styrkjast aftur. Verð á evru fór undir 140 krónur fyrri hluta aprílmánaðar og hefur haldist að mestu á milli 135 og 140 síðan. Frá því að við birtum síðustu Hagsjá um krónuna í júní hefur ekkert gerst sem breytir skoðun okkar um framvinduna næsta árið. Við eigum enn von á að krónan styrkist frekar og teljum líklegt að evran fari undir 135 í ár.
Evran hefur veikst á móti Bandaríkjadal það sem af er ári og hefur ekki verið veikari í 20 ár. Seinustu hagtölur frá evrusvæðinu hafa verið frekar veikar, meðal annars mældist halli á viðskiptum við útlönd í Þýskalandi í fyrsta sinn síðan 1991. Evran fór nýverið undir 1,02 Bandaríkjadali og stefnir hraðbyri að því að vera á pari. Þrátt fyrir að evran hafi lækkað um 5,6% á móti krónunni það sem af er ári og vegið meðaltal gjaldmiðla helstu viðskiptalanda okkar (gengisvísitalan) hafi lækkað um 4,4% þá hefur Bandaríkjadalur hækkað um 5,0%.