Hagsjá: Það hægir á hækkun launavísitölunnar - kaupmáttur enn nokkuð stöðugur
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,3% milli júní og júlí. Breytingin á ársgrundvelli var 4,2% sem er minnsta árshækkun frá 2011. Hækkun launavísitölunnar vegna kjarasamninganna frá í vor er töluvert minni en verið hefur vegna samningsbundinna hækkana síðustu ár. Enn sem komið er virðist markmiðið um hækkun lægstu launa hafi tekist. Þess eru allavega fá merki að almennt launaskrið sé í gangi að nokkru marki.
Þrátt fyrir að töluvert hafi dregið úr hækkunum launa hefur kaupmáttur launa verið stöðugur undanfarna mánuði, og jókst frekar eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur í júlí var 2,2% meiri en á sama tíma í fyrra. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 25%, eða u.þ.b. 6% á ári.
Til lengri tíma litið hefur kaupmáttur launa, eins og hann mælist með launavísitölu, aldrei verið meiri. Kaupmáttaraukningin var mikil og stöðug allt frá árinu 2010 fram á árið 2018, en breytingar hafa verið minni síðustu mánuði. Þróunin er þó enn upp á við.
Næstu samningsbundnu launabreytingar á almenna markaðnum verða ekki fyrr en í apríl á næsta ári og því má búast við að kaupmáttur láti eitthvað undan síga fram að því nema launaskrið verði því meira. Þá er þess að vænta að nýir kjarasamningar á opinbera markaðnum verði gerðir á næstu vikum og munu áhrif þeirra lyfta launavísitölunni upp á við.
Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá maí 2018 til maí 2019, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum voru minni en á þeim opinbera þrátt fyrir að áhrifa kjarasamninganna á almenna markaðnum, sem voru gerðir í byrjun apríl, ætti að vera farið að gæta í þessum tölum.
Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá maí 2018 til sama mánaðar 2019 var mest hjá verkafólki, 6,6%. Launavísitalan fyrir heildina hækkaði um 5,1% á þessum tíma og því virðist sem markmið kjarasamninganna um að hækka lægstu launin mest hafi gengið eftir. Laun sérfræðinga og stjórnenda hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða undir 3%, sem er langt fyrir neðan hækkun launavísitölu.
Sé litið til atvinnugreina hækkuðu laun mest í flutningum og geymslustarfsemi milli maí 2018 og 2019, um 6,2%. Sú breyting er vel fyrir ofan hækkun launavísitölunnar. Næstmesta hækkunin var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Laun í fjármála- og vátryggingarstarfsemi hækkuðu langminnst á þessu tímabili, enda voru kjarasamningar þar gerðir seinna en annars staðar á almenna markaðnum.
Hagstofan hóf birtingu launavísitölu fyrir rekstur gististaða og veitingarekstur í byrjun ársins 2019. Launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn hækkaði um 2,6% frá desember 2018 fram í maí 2019. Á sama tíma hækkaði launavísitalan fyrir rekstur gististaða og veitingarekstur um 6,1%. Þetta var mesta hækkun vísitölunnar sem mældist á þessum tíma, næst hæsta gildið var fyrir starfsstéttina þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk, sem hækkaði um 5,8%, og verkafólk, sem hækkaði um 5,2%. Þessar miklu launabreytingar í rekstri gististaða og veitingarekstri í kjölfar kjarasamninganna eru vísbending um að meðallaun í greininni séu með allra lægsta móti.
Nú hefur kjarasamningum verið lokað fyrir nær allan almenna markaðinn, en nær allur opinberi markaðurinn er enn með lausa samninga. Svo virðist sem þær áherslur sem settar voru fram með lífskjarasamningnum svokallaða frá 3. apríl hafi náð fótfestu á öllum almenna markaðnum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Það hægir á hækkun launavísitölunnar - kaupmáttur enn nokkuð stöðugur (PDF)