Samantekt
Við spáum því að Peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti um 1 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun þann 20. maí.
Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur þrívegis á þessu ári lækkað stýrivexti og nemur lækkunin samtals 1,25 prósentum. Í febrúar ákvað nefndin að lækka vexti um 0,25 prósentustig. Þegar efnahagsleg áhrif faraldursins fóru að koma betur í ljós voru vextir lækkaðir tvívegis með einnar viku millibili um miðjan marsmánuð, um 0,5 prósentustig í hvort skiptið. Meginvextir bankans í dag eru 1,75% og hafa þeir ekki áður verið lægri.
Verðbólga líklegast yfir markmið vegna gengisveikingar
Krónan hefur veikst töluvert á síðustu mánuðum og teljum við að öll áhrif þess séu ekki að fullu komin fram í verðlagi. Við teljum því að verðbólga muni aukast lítillega á næstu fjórðungum. Samkvæmt nýútkominni hagspá okkar mun verðbólgan fara upp fyrir markmið á þriðja ársfjórðungi og ná hámarki í 3,5% á fjórða fjórðungi ársins. Mikill framleiðsluslaki í hagkerfinu og lítils háttar styrking krónunnar á næsta ári mun leiða til þess að verðbólga lækkar niður í markmið á ný. Spá Hagfræðideildar gerir ráð fyrir að verðbólga komist aftur í markmið á fjórða ársfjórðungi á næsta ári og verði nálægt markmiði allt árið 2022.