Hagsjá: Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Samantekt
Við gerum ráð fyrir að peningastefnunefnd ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum. Ákvörðun nefndarinnar verður tilkynnt miðvikudaginn 23. ágúst. Ákvörðunin verður að þessu sinni byggð á uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá samfara útgáfu nýrra Peningamála.
Peningastefnunefndin fetar nýjar slóðir
Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar þann 14. júní síðastliðinn. Það helgast af mjög mikilli veikingu á gengi krónunnar á tímabilinu. Þannig hefur gengisvísitalan hækkað um 12% frá síðasta fundi. Peningastefnunefndin er á alveg nýjum slóðum að þessu leyti enda er þetta mesta lækkun krónu gagnvart evru milli funda peningastefnunefndar frá því hún tók til starfa á vormánuðum 2009. Milli tveggja fyrstu funda nefndarinnar í mars og apríl 2009 hækkaði gengisvísitalan um 11,3%. Þá lækkaði nefndin reyndar vexti milli funda en staðan þá er engan veginn sambærileg við núverandi aðstæður enda voru nafnvextir þá 17%, gjaldeyrishöftum hafði verið komið á og mikill framleiðsluslaki til staðar. Þriðja mesta lækkun gengisins þarna á eftir var milli ágúst- og októberfunda árið 2012 en þá hækkaði gengisvísitalan um 6,5%. Þetta er því mun meiri veiking en nefndin á að venjast og athyglisvert hver framvirk leiðsögn nefndarinnar verður vegna þessa.
Lesa Hagsjána í heild









