Samantekt
Við teljum að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda vöxtum óbreyttum á næsta fundi nefndarinnar, en ákvörðunin verður tilkynnt miðvikudaginn 12. desember. Við teljum þó alls ekki útilokað að nefndin hækki vexti um 0,25 prósentustig.
Vaxtahækkunin síðast var ekki óvænt
Síðast hækkaði nefndin vexti um 0,25 prósentustig. Sú hækkun kom ekki á óvart, en við töldum allt eins líklegt að sú hækkun kæmi í desember. Lækkun bindiskyldunnar úr 40% í 20% var tekin á vettvangi Seðlabankans örfáum dögum fyrir síðustu vaxtaákvörðun. Við töldum líklegt þá að nefndin myndi vilja bíða og sjá áhrif lækkunar bindiskyldunnar áður en tekin væri ákvörðun um hækkun vaxta.
Með síðustu vaxtahækkun var nefndin í raun ekki að herða aðhaldið. Hún var einungis að bregðast við því að raunstýrivextir á mælikvarða verðbólgu og verðbólguvæntinga hefðu lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar og því þyrfti að færa þá vexti aftur upp ef viðhalda ætti óbreyttu aðhaldsstigi.