Samantekt
Peningastefnunefnd lækkaði vexti bankans um 1,5 prósentustig á síðasta ári. Ákveðið var að halda vöxtum óbreyttum á síðasta ákvörðunarfundi, eftir samfellda lækkun frá því í maí.
Þegar vextir voru síðast lækkaðir var í yfirlýsingu nefndarinnar tekið fram að það vaxtastig ætti að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta. Í ljósi þess að engar afgerandi upplýsingar um stöðu hagkerfisins hafa borist síðan er fátt sem bendir til þess að hróflað verði við vöxtum að þessu sinni. Tölur um hagvöxt á fjórða ársfjórðungi síðasta árs liggja ekki fyrir fyrr en í lok febrúar. Hagfræðideild telur líklegt að Peningastefnunefndin vilji halda vöxtum óbreyttum núna og eiga þannig inni fyrir vaxtalækkun þegar fram líða stundir, komi í ljós að krafturinn í hagkerfinu sé minni en búist var við.